„Skíðaflug“ til Sviss á 3.440 krónur

engelberg

Flug til Alpanna er mjög takmarkað yfir vetrarmánuðina en núna er hægt að fá flugmiða til Basel fyrir lítið. Flugferðir til Alpanna eru fáar  en núna er hægt að fá flugmiða til Basel fyrir lítið.
Skíðasvæðin í Ölpunum hafa skiljanlega mikið aðdráttarafl á veturna en svo óheppilega vill til, fyrir íslenskt skíðaáhugafólk, að framboð á beinu flugi til nærliggjandi borga er lítið. WOW air fer vikulega til Salzburgar, til Munchen má komast með Icelandair og svo bjóða ferðaskrifstofur upp á pakkaferðir á ítölsk og austurrísk skíðasvæði. Fleiri eru kostirnir ekki nema fólk millilendi á leiðinni.
Þarsíðasta vetur var úrvalið hins vegar mun meira því þá bauð breska lággjaldaflugfélagið easyJet upp beint flug héðan til Genfar og Basel en þessar áætlunarferðir lögðust hins vegar af á tímabilinu nóvember til janúar í fyrra og eins og staðan er núna þá virðast forsvarsmenn easyJet ætla að bíða með Genfarflugið en Baselflugið er á dagskrá frá byrjun febrúar.   

Töskugjaldið hærra en farmiðaverðið

Sú borg er aðeins lengra frá skíðabrekkum en Genf en þrátt fyrir það gætu fargjöldin til Basel vakið áhuga skíðaáhugafólks hér á landi. Í febrúar og mars má nefnilega finna töluvert úrval af ferðum, báðar leiðir, á undir 20 þúsund og þann 3. febrúar kostar aðeins 26 evrur eða 3.440 krónur að fljúga út frá Keflavíkurflugvelli. Og sá sem flýgur svo heim aftur fjórum dögum síðar borgar 10.716 krónur fyrir báðar leiðir. Það er ögn minna en það kostar að taka skíðabúnað með sér í flugið hjá easyJet en gjaldið fyrir þá þjónustu er 85 evrur eða um 11.250 krónur. 

Bíll eða lest

Almenningssamgöngur frá Basel og upp í fjöll eru fínn kostur í mörgum tilvikum því frá aðallestarstöðinni í Basel er hægt að komast í allar áttir og svo sjá rútur um að flytja farþega síðasta spölinn upp í fjöllin. Svo má líka leigja bíl við komum til Basel en samkvæmt athugun Túrista þá er kostar vikuleiga á fólksbíl á bilinu 25 til 30 þúsund krónur í febrúar og mars.

Stór skíðasvæði í ca. 2 tíma akstursfjarlægð frá Basel

1. Engelberg 
2. Grindelwald
3. Adelboden
4. Chateau d’Oex
5. Andermatt

SMELLTU TIL AÐ GERA VERÐSAMANBURÐ Á BÍLALEIGUBÍLUM Í BASEL