WOW bætir í flugið til Amsterdam og Dublin

amsterdam Jace Grandinetti

Þeir sem eiga erindi til Hollands í vetur eða ætla að millilenda á Schiphol á leið sinni út í heim hafa úr meira að moða í vetur. Félagið fjölgar einnig ferðunum til höfuðborgar Írlands. Þeir sem eiga erindi til Hollands í vetur eða ætla að millilenda á Schiphol á leið sinni út í heim hafa úr meira að moða í vetur. Félagið fjölgar einnig ferðunum til höfuðborgar Írlands.
Sumarið 2013 bættist hollenska borgin Amsterdam við leiðakerfi WOW air og síðastliðinn vetur bauð félagið upp á tvær ferðir í viku til borgarinnar. Forsvarsmenn félagsins ætla hins vegar að bæta verulega við flugið til Schiphol í vetur því þá munu þotur WOW lenda daglega við þessa fimmtu fjölförnustu flughöfn Evrópu. Þar með geta farþegar á Keflavíkurflugvelli valið á milli þriggja brottfara á dag til Amsterdam en Icelandair býður upp á morgunflug til borgarinnar, líkt og WOW air, og aðra ferð upp úr hádegi.

Oftar til Dublin

Síðustu ár hefur flug héðan til Bretlands stóraukist og til að mynda hefur easyJet flogið nokkrar ferðir í viku hingað frá Belfast á Norður-Írlandi. Það var hins vegar fyrst í fyrra sem nágrannalandið Írland komst á kortið en þá fór WOW air jómfrúarferð sína til Dublin. Í vetur mun félagið tvöfalda umsvif sín þar í borg og fljúga þangað alla daga nema þriðjudaga og laugardaga. Ekkert annað flugfélag býður upp á áætlunarflug milli Íslands og Írlands en Dublin hefur verið vinsæll áfangastaður fyrir sérferðir á vegum íslenskra ferðaskrifstofa um langt skeið.