Dýrt að fljúga með of þungar töskur

kef taska 860

Ef ferðataskan vegur meira en 20 eða 23 kíló þá gæturðu þurft að borga á annan tug þúsunda króna í aukaþóknun til flugfélagsins. Ef ferðataskan vegur meira en 20 eða 23 kíló þá gæturðu þurft að borga á annan tug þúsunda króna í aukaþóknun til flugfélagsins.
Farangursheimild er ekki alltaf innifalin í farmiðaverðinu og því verða þeir sem vilja ferðast með meira en aðeins handfarangur að borga aukalega undir töskuna. Áður einskorðaðist svona gjaldtaka við lággjaldaflugfélög en sú tíð er liðin. Nú rukka rótgróin flugfélög eins og Lufthansa, SAS og British Airways líka fyrir töskurnar þegar ódýrustu fargjöldin eru keypt.

Hvort sem farangurinn er innifalinn í farmiðaverðinu eða ekki þá er hámarksþyngd töskunnar annað hvort 20 eða 23 kíló. Almennt eru það lággjaldaflugfélögin sem setja hámarkið við neðri töluna en hjá hinum nær heimildin upp í 23 kíló. Ef taskan er hins vegar þyngri þá þarf farþeginn að borga sérstaklega fyrir umframkílóin og það getur orðið dýrkeypt.

Sum flugfélög innheimta nefnilega fast verð fyrir yfirvigt og skiptir þá engu máli hvort umframþyngdin er 1 eða 10 kíló. Af þeim flugfélögum á Keflavíkurflugvelli þá er yfirvigtargjaldið hæst hjá systurfélögunum Airberlin og flyNiki eða ríflega 13 þúsund krónur og hjá SAS og Delta þarf að borga um 12 þúsund. Reyndar er hæsta gjaldið í Ameríkuflugi Icelandair en farþegar félagsins, á leið til Bandaríkjanna eða Kanada, fá hins vegar að innrita tvær 23 kíló töskur sér að kostnaðarlausu og er það rýmri heimild en er í boði annars staðar. 

Borgað á hvert kílógramm

Önnur flugfélög fara þá leið að rukka fyrir hvert kíló sem er umfram þau 20 eða 23 sem taskan má vera. Verð á kíló er þá á bilinu eitt til tvö þúsund krónur hæst er það hjá WOW air eða 1.999 krónur og næstdýrasta hjá Primera Air eða 1.900 krónur. Oftast er gjaldið hins vegar í kringum fimmtán hundruð krónur. Eins og gefur að skilja þá er síðarnefnda aðferðin, að rukka per aukakíló, mun hagstæðari kostur fyrir farþega ef þeir eru aðeins með  eitt til þrjú kíló framyfir en þeir sem eru með alltof þungar töskur borga minna hjá þeim flugfélögum sem eru með eitt fast verð á alla yfirvigt.

Gengi krónunnar lækkar yfirvigtina

Vorið 2012 gerði Túristi síðast samanburð á yfirvigtargjöldum flugfélaganna og þá kostaði aukakílóið hjá WOW air 600 krónum minna en í dag og hjá Icelandair hefur verðskráin hækkað um fjórðung. En eins og sést á upptalningunni hér fyrir neðan þá hefur yfirvigtargjaldið, í krónum talið, lækkað hjá flugfélögum eins og Lufthansa og easyJet á þeim fjórum árum sem liðin eru frá síðustu könnun. Þess má geta að lokum að flugfélögin setja það öll sem skilyrði að ferðatöskur megi ekki vera þyngri en 32 kíló.