Fleiri vetrarflug ekki í kortunum

norwegian velar860

Forsvarsmenn Norwegian bættu óvænt við þremur nýjum flugleiðum til Íslands nú í vetur. Ekki er von á fleiri nýjungum. Forsvarsmenn Norwegian bættu óvænt við þremur nýjum flugleiðum til Íslands nú í vetur. Ekki er von á fleiri tíðindum frá þessu þriðja stærsta lággjaldaflugfélagi Evrópu á næstunni.
Síðustu fimm ár hefur Íslandsflug norska lággjaldafélagsins Norwegian verið í föstum skorðum og þotur félagsins hafa flogið hingað þrjár ferðir í viku frá Ósló og reglulega frá Bergen stóran hluta ársins. Haustið 2013 sagði hins vegar forstjóri félagsins, í viðtali við Túrista, að hann sæi tækifæri í auknum umsvifum hér á landi en ekkert hefur orðið úr því jafnvel þó stjórnendur Norwegian hafi í millitíðinni sótt um og fengið lendingarleyfi fyrir flug hingað frá Kaupmannahöfn og London. Á sama tíma hafa mörg önnur erlend flugfélög stóraukið flug sitt til Íslands en Norwegian hefur einbeitt sér að auknu flugi til Bandaríkjanna og opnun starfsstöðva í Bretlandi, Frakklandi og á Spáni.

Óvænt viðbót

Í lok ágúst tilkynnti Norwegian hins vegar að frá og með byrjun nóvember yrði Íslandi hluti að vetraráætlun félagsins frá London, Barcelona og Madríd. Verður Norwegian þar með fimmta flugfélagið til að fljúga milli Íslands og höfuðborgar Bretlands og það fyrsta til að bjóða upp á vetrarflug hingað frá Madríd. Óhætt er að fullyrða að þessi viðbót hafi komið mörgum í ferðageiranum á óvart. Ekki bara hér á landi því í breska blaðinu Independent var Íslandsflug Norwegian frá Gatwick í London tekið sem dæmi um hversu mikil samkeppni er orðin í flugi innan Evrópu og flugfélög eigi í vandræðum með að finna verkefni fyrir allan flugflotann sinn.

Sjá til með sumarið

Astrid Gaustad Mannion, talskona Norwegian, segir þó í svari til Túrista að þessar nýju flugleiðir félagsins hafi verið á teikniborðinu um nokkurt skeið en á þessari stundu sé ekki útlit fyrir fleiri viðbætur við dagskrána þegar kemur að flugi til Íslands. Aðspurð um hvort það sé ekki sérstakt að hefja flug hingað frá Spáni yfir vetrarmánuðina segir hún að vissulega sé þetta ekki háannatími í ferðaþjónustunni en það sé trú stjórnenda Norwegian að þessi viðbót fái góðar undirtektir meðal Spánverja og Breta og ekki síst Íslendinga. Að sögn Mannion er hins vegar og snemmt að segja til um hvort flugleiðirnar þrjár verði starfræktar næsta sumar. „Við verðum að sjá hverjar viðtökurnar verða áður en við tökum ákvörðun varðandi næsta sumar.”