WOW til Miami

Samkeppni í flugi héðan til Flórída eykst með tilkomu Miami flugs WOW air. Það er þó langt á milli heimahafna Icelandair og WOW í „sólskinsfylkinu“. Samkeppni í flugi héðan til Flórída eykst með tilkomu Miami flugs WOW air. Það er þó langt á milli heimahafna Icelandair og WOW í „sólskinsfylkinu“.
Stuttu fyrir páskana á næsta ári fer WOW air sína fyrstu ferð til Flórídafylkis í Bandaríkjunum og mun þotur félagsins fljúga þessa leið þrisvar í viku allt árið um kring. Sala á farmiðunum hefst í dag og samkvæmt tilkynningu frá félaginu verða breiðþotur félagsins nýttar í flugið en í þeim eru sæti fyrir 350 farþega. „Það er ánægjulegt að vera fyrsta íslenska flugfélagið sem mun bjóða upp á áætlunarflug til Miami og höldum við þar með áfram stefnu okkar að kynna nýja og spennandi áfangastaði á hagstæðum verðum fyrir farþega okkar. Ég þekki Miami vel af eigin raun og veit að þar geta allir fundið eitthvað við sitt hæfi. Einnig höfum við nú þegar fundið fyrir miklum áhuga á Íslandi frá íbúum Flórídafylkis sem munu án vafa nýta sér lág fargjöld og sækja Ísland heim,“ er haft eftir Skúla Mogensen eiganda og forstjóra WOW air í tilkynningunni.

Ódýrast út á miðvikudögum

Af fylkjum Bandaríkjanna eru fá sem njóta álíka vinsælda hjá ferðamönnum eins og Flórída gerir og um langt skeið hefur Icelandair boðið upp á flug héðan til Orlandó frá hausti og fram á vor en gert hlé á ferðunum yfir sumarmánuðina þrjá. Orlando liggur í fylkinu miðju en Miami er um 380 kílómetrum sunnar og er jafnframt næst fjölmennsta borg Flórída á eftir Jacksonville.
Samkvæmt athugun Túrista kosta ódýrustu farmiðarnir með WOW til Miami 17.999 að viðbættu bókunargjaldi og eins þarf að borga aukalega fyrir innritaðan farangur. Í apríl er það þó aðeins jómfrúarflugið 5. apríl sem kostar svona lítið en allar miðvikudagsbrottfarirnar frá Keflavíkurflugvelli til Miami í maí eru a þessu verði. Hina dagana er farmiðaverð WOW um 30 þúsund krónur, aðra leið.