Innanlandsflug frá Keflavík yrði gjörbylting fyrir ferðaþjónustuna

Forsvarsmenn Flugfélags Íslands kanna möguleikan á því að bjóða upp á flugferðir milli Keflavíkurflugvallar og Akureyrar yfir lengra tímabil en nú er gert. Forsvarsmenn Flugfélags Íslands kanna möguleikan á því að bjóða upp á flugferðir milli Keflavíkurflugvallar og Akureyrar yfir lengra tímabil en nú er gert. Framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands segir innanlandsflug frá Keflavík auka möguleikan á að byggja upp ferðaþjónustu yfir veturinn og hótelstjórinn á Hótel Reynihlið við Mývatn segir að tenging við alþjóðlegt samgöngukerfi myndi minnka árstíðarsveiflur, skapa fleiri heilsársstörf og bæta búsetuskilyrði.
Síðustu fjögur sumur hefur Flugfélag Íslands boðið upp á beint flug milli Akureyrar og Keflavíkurflugvallar yfir hásumarið í tengslum við flug Icelandair út í heim. Farþegarnir millilenda þá á Keflavíkurflugvelli og halda þaðan beint til Akureyrar eða öfugt. Þó eftirspurnin eftir þessum áætlunarferðum hafi ekki verið mjög mikil þá kanna forsvarsmenn Flugfélags Íslands núna möguleikan á því að bjóða upp á þessa þjónustu yfir lengra tímabil en nú er gert líkt og Túristi greindi frá. Ef af verður þá yrði það skref í rétta átt að mati Arnheiðar Jóhannsdóttur, framkvæmdastjóra Markaðsstofu Norðurlands. „Tengiflug Icelandair sem hefur verið haldið úti frá árinu 2012 veitir okkur í ferðaþjónustunni á Norðurlandi mikil tækifæri en ókosturinn er auðvitað sá að þetta er aðeins í boði yfir sumartímann. Mesta þörfin fyrir beint flug og bættar samgöngur er yfir vetrartímann og því myndum við fagna því ef hægt væri að efla innanlandsflugið frá Keflavík.”

Takmarkanir á núverandi fyrirkomulagi

Þegar systurfélögin Icelandair og Flugfélag Íslands hófu að bjóða upp flug milli Akureyrar og Keflavíkurflugvallar voru farnar fjórar ferðir í viku en þeim hefur hins vegar farið fækkandi síðustu sumur og segir Arnheiður margar ástæður fyrir því. „Ein af stóru hindrununum fyrir auknu innanlandsflugi um Flugstöð Leifs Eiríkssonar er sú að þar hefur ekki tekist að skapa aðstöðu til þess að ferðamenn geti nýtt flugið, hvaðan sem þeir koma. Þeir þurfa að fljúga með sama flugfélagi alla leið frá Evrópu eða Ameríku og það takmarkar auðvitað þann fjölda sem getur nýtt sér innanlandslegginn. Einnig gerir það ferðamönnum erfiðara fyrir að nýta sér þann fjölda tilboða á flugum sem er í boði til Íslands því þeir geta ekki keypt tilboð með einu flugfélagi og tekið svo innanlandsflug frá Keflavík. Mín skoðun er sú að innanlandsflug um Keflavík gjörbreytir aðstöðu okkar á þeim landshlutum sem nú eru að berjast hvað mest fyrir bættum samgöngum til að eiga möguleika á að byggja upp ferðaþjónustu yfir vetrartímann. Þetta eru Norðurland, Austurland og Vestfirðir, svæði sem hafa ekki séð nema örlítið brot af þeim ferðamönnum sem koma til landsins utan háannar. Ástæða þess er ekki sú að afþreyingu eða aðdráttarafl vanti heldur sú að til þess að komast á þessi svæði þarf ferðamaðurinn að vera tilbúinn til að leggja á sig heilmikinn auka kostnað og tíma vegna lélegra samgangna.”

Myndi draga úr árstíðarsveiflum

Pétur Snæbjörnson, hótelstjóri á Hótel Reynihlíð við Mývatn, hefur lengi talað fyrir innanlandsflugi frá Keflavíkurflugvelli og hann segist sannfærður um að Flugfélag Íslands muni hefja flug þaðan í fyrirsjáanlegri framtíð því þannig verði til góðar samgöngur hér á landi. Og Pétur telur að það ekki síður mikilvægt fyrir íslenska ferðaþjónustu en þá norrænu að tengja saman innanlandsflug og millilandaflug en líkt og kom fram í viðtölum Túrista við forsvarsmenn ferðaþjónustunnar á hinum Norðurlöndunum þá skiptir þessi tenging miklu máli til gefa túristum tækifæri til að dreifa sér betur um löndin. „Ef við sem rekum þjónustu við ferðamenn í dreifðum byggðum myndum tengjast við alþjóðlegt samgöngukerfi myndi það gerbylta rekstrarumhverfi okkar, minnka árstíðasveifluna til mikilla muna, gera reksturinn aðbærari, skapa fleiri heilsársstörf, örva markaðsstarf, bæta búsetuskilyrði og svo mætti áfram lengi telja”.

„Engu líkara en okkur sé markvisst haldið í herkví“

Að sögn Pétur eru ferðaþjónustufyrirtæki út um allt land séu löngu tilbúin til að taka við meiri eftirspurn. „Það er engu líkara en okkur sé markvisst haldið í herkví og þannig skulu allir sem til landsins koma fara fyrst í höfuðstaðinn og svo ferðast þaðan, helst í dagsferðir eða keyra hringveginn. Þetta fyrirkomulag er búið að stórskaða ímynd landsins því flestum finnst þeir verði að afplána hringveginn og fáir velja sér einn eða tvo áfangastaði hér á landi til að dvelja á í frítíma sínum líkt og tíðkast í öðrum löndum. Við erum að senda gesti okkar út á þjóðvegina í misjöfnum vetrarveðrum og í alls konar aðstæður sem þeir ráða illa við. Nú verðum við bara að hysja upp um okkur buxurnar og koma á viðunandi skipulagi í samgöngum landsins. Það er þekkt hvað þarf að gera og nú er spurning um að vinda sér í verkið.” Pétur er líka gagnrýnin á hvernig umræðan um innanlandsflug hefur þróast í gegnum tíðina. „Þegar þetta mál hefur komið til tals þá gengur yfirleitt illa að halda umræðunni í fókus og ýmsir óviðkomandi þættir teknir inn til að drepa henni á dreif. Við eigum að ræða samgöngunet og hvernig mismunandi hlutar þess tengjast saman og umræðan á því ekki að snúast um sjúkraflug eða kennsluflug. Það eru fáir sem hafa þekkingu á málunum sem tjá sig en hinir hafa þeim mun hærra. Fólk hættir sér ekki út á þennan hála ís og það er í sjálfu sér einkennilegt því þetta er mikilvægt málefni sem varðar alla sem búa í landinu.”
TENGDAR GREINAR: AKUREYRINGAR YRÐU JAFN LENGI ÚT Á KEFLAVÍKURFLUGVÖLL OG REYKAVÍKINGAR