Samfélagsmiðlar

Mikilvægt fyrir ferðaþjónustu að tengja saman innanlands- og milllilandaflug

kef farthegar

Forsvarsmenn ferðamála í Finnlandi, Noregi og Danmörku segja það skipta miklu máli að ferðamenn geti flogið út á land beint frá aðalflugvöllum landanna. Sá kostur er hins vegar ekki í boði fyrir ferðafólk á Íslandi.
Þoturnar sem taka á loft frá Keflavíkurflugvelli setja allar stefnuna á útlönd á meðan innanlandsflug er stór hluti af umferðinni um helstu flugvelli Norðurlanda og einnig annars staðar í Evrópu. Ferðamenn sem lenda á Óslóarflugvelli geta til að mynda flogið þaðan beint til á annars tugs norskra borga og bæja. Og þessar samgöngur eru afgerandi fyrir fyrir íbúa og aðkomufólk í landshlutum þessa langa lands að mati Stein Ove Rolland, talsmanns, ferðamálaráðs Noregs. „Óslóarflugvöllur er klárlega mikilvægasta gáttin fyrir ferðamenn inn í Noregi en við viljum að þeir upplifi meira en bara höfuðborgina. Þeir eiga líka að sjá Bergen og firðina, fara til Stavanger, Þrándheims eða Bodö, Tromsö, Lófóten o.s.frv. Flugsamgöngurnar á milli Óslóar og þessara staða eru því þýðingarmiklar. Þær binda Noreg og útlandið saman.“

Íslenska kerfið yrði áskorun fyrir Finna

Líkt og í Noregi geta fjarlægðirnar verið miklar í Finnlandi og frá Helsinki-Vantaa, stærsta flugvelli Finna, er boðið upp á flug innanlands og utan. Þetta fyrirkomulag er mjög þýðingarmikið fyrir ferðaþjónustuna þar í landi segir Paavo Virkkunen, framkvæmdastjóri ferðamálaráðs Finnlands, í svari til Túrista. „Ég ímynda mér að það myndi valda alvarlegum skaða á ferðaþjónstuframboðinu ef það væri nauðsynlegt að skipta um flugvöll í Helsinki til að komast í innanlandsflug og það myndi því vera mikil áskorun að fást við það. Til allrar hamingju eru engar líkur á sú staða komi upp.” Virkkunen bendir hins vegar á að Reykjavík sé mikilvægari áfangastaður fyrir ferðamenn hér á landi en Helsinki er fyrir túrista í Finnlandi og aðstæður því ekki alveg sambærilegar. Að mati Virkkunen er það því skiljanlegt að boðið sé upp á flug úr miðborg Reykjavíkur þar sem höfuðborgin sé stór hluti af ferðaáætlun fólks hér á landi. Enda yrði það mun tímafreka fyrir ferðamenn að þurfa að keyra frá Reykjavík til Keflavíkur í miðri dagskrá en að koma sér út á Reykjavíkurflugvöll.

Mikilvægt að þjónustan sé aðgengileg

Þó Danmörk sé mun minna land en Noregur og Finnland og með góðar lestarsamgöngur þá er Lars Erik Jøhnsson, aðstoðarframkvæmdastjóri ferðamálaráðs Danmerkur, þeirrar skoðunar að öflugt innanlandsflug sé mikilvægt fyrir Danmörku. „Það er engin vafi á því að í ferðaþjónustu hefur það mikla þýðingu að hlutirnir séu aðgengilegir. Bæði fyrir þá sem eru í vinnuferðum og þá sem eru í fríi. Kaupmannahafnarflugvöllur hefur að sjálfsögðu afgerandi þýðingu fyrir ferðageirann í höfuðborginni en á sama tíma er það einnig mikilvægt fyrir danska ferðaþjónstu að erlendir ferðamenn geti flogið beint frá sínum heimalöndum og til fjölda flugvalla fyrir utan Kaupmannahöfn.“ Jøhnsson bætir því við að þó ekki séu til neinar mælingar á því hversu vel erlendir ferðamenn í Danmörku nýti sér innanlandsflug þá sé hann sannfærður um að ferðirnar til og frá Kaupmannahöfn séu hluti af því að fá túrista út á land.

Margir millilenda aðeins í Ósló

Sem fyrr segir er innanlandsflug stór hluti af heildarumferðinni um stærstu flugvelli Evrópu og til að mynda var vægi þess um 30 prósent á Óslóarflugvelli í fyrra og stór hluti þeirra farþega sem nýtir sér innanlandsflugið þar millilendir aðeins í Ósló á leið sinni frá útlöndum og til annarra hluta Noregs eða öfugt. Fyrstu sjö mánuðina í ár hafa til að mynda 6,4 milljónir flogið innanlands til og frá Óslóarflugvelli og þar af voru tæpar 2 milljónir skiptifarþegar. Af heildarfarþegafjöldanum á Óslóarflugvelli eru þessi farþegahópur um 15 prósent af heildarfarþegafjöldanum að frádregnum skiptifarþegum á leið til útlanda. Einn af hverjum sjö farþegum á Óslóarflugvelli millilendir sem sagt þar á leið sinni í eða úr innanlandsflugi. Á sumum flugleiðum er vægi skiptifarþega frá útlöndum mun hærra eða allt að 30 prósent samkvæmt tölum sem Túristi hefur fengið frá Óslóarflugvelli. Þar getur verið um að ræða norska og útlenda farþega. Þess má geta að Óslóarflugvöllur, stundum kenndur við Gardermoen, er 50 kílómetrum fyrir sunnan höfuðborgina sjálfa, ögn lengra í burtu en Keflavíkurflugvöllur er frá Reykjavík. Hins vegar gengur hraðlest á milli flugstöðvarinnar og miðborgar Óslóar sem gerir samgöngurnar auðveldar.

Gætu fyllt nokkrar Bomdardier á dag í Keflavík

Á hverjum degi lenda á bilinu 2.500 til 8.000 erlendir ferðamenn á Keflavíkurflugvelli og 1 til 2 þúsund Íslendingar. Ef skiptiflug þaðan út á land yrði álíka vinsælt og það er á Óslóarflugvelli þá myndu 500 til 1.500 farþegar á dag kjósa að fljúga þaðan og beint út á land. En þar sem vegalengdirnar eru í mörgum tilfellum styttri hér en í Noregi er óhætt að fullyrða að svo mikil yrði hlutdeild skiptifarþega í innanlandsflugi ekki á Keflavíkurflugvelli. Ef vægi þess yrði hins vegar fjórðungur af því sem þekkist í Noregi þá myndu skiptifarþegar í innanlandsflugi á Keflavíkurflugvelli daglega fylla tvær til sex Bombardier Q400 vélar eins og Flugfélag Íslands notar.
Með innanlandsflugi frá Keflavík yrði flug til útlanda líka einfaldari kostur fyrir íbúa víða um land. Austfirðingur sem keyrir í dag 700 kílómetra frá heimili að Keflavíkurflugvelli gæti þá hafið ferðalagið á Egilsstaðarflugvelli eða á Höfn, innritað töskurnar sínar þar og sótt þær á ný við komuna til útlanda líkt og íbúar í hinum dreifðari byggðum Noregs og Finnlands geta gert þegar þeir fljúga til og frá útlöndum.

Nýtt efni

Mitt inn í dimmum Grünheideskógi skammt frá Berlín hafa 80 manneskjur komið sér fyrir í kofum sem þau hafa byggt hátt uppi trjánum. Kofaþorpið eru bækistöðvar mótmælenda eða aðgerðarsinna eins og þau kalla sig. Einmitt inni í þessum sama skógi hyggst bandaríski rafmagnsbílaframleiðandinn Tesla stækka svokallaða gígaverksmiðju sem var tekin var í notkun í mars …

Lufthansa hefur náð samkomulagi við verkalýðsfélagið Verdi og þar með er endi bundinn á langa vinnudeilu við flugvallarstarfsfólk þýska flugfélagsins. Flugáætlun Lufthansa fer því ekki úr skorðum yfir páskana líkt og útlit var fyrir en félagið er með þrjár flugferðir til Íslands á áætlun sinni yfir hátíðarnar. Hinn nýi samningur Verdi og Lufthansa kemur í …

Það voru 561 þúsund skráðar gistinætur hér á landi í febrúar sem er um 2,5 prósent samdráttur í samanburði sama tímabil í fyrra. Ef tekið er tillit til hlaupársdagsins þá var fækkunin ennþá meiri eða nærri 6 af hundraði. Á hótelum landsins voru gistinæturnar 373 þúsund sem er ögn meira en í febrúar í fyrra …

Þegar Hagstofan leggur mat á breytingar á verðlagi þá er meðal annars horft til fargjalda, bæði í flug innanlands og til útlanda. Samkvæmt nýjum verðmælingum Hagstofunnar þá lækkaði farið frá Keflavíkurflugvelli um 5 prósent í mars en farþegar í innanlandsflugi þurftu að borga 16 prósent meira en í fyrra. Á sama tíma hækkaði verðlag í …

„Undanfarna mánuði hafa stjórnmálamenn og verkalýðsforingjar viðrað hugmyndir um að hækka virðisaukaskattshlutfall ferðaþjónustu í 24%. Almenn greining á grundvelli viðtekinnar þjóðhagfræði, sem SAF hefur látið vinna, bendir til þess að slík hækkun myndi almennt hækka verðlag og þar með verðbólgu á viðkomandi ári, lækka veltu í ferðaþjónustu, veikja samkeppnishæfni hennar, lækka verga landsframleiðslu og auka …

Xiaomi er hraðvaxta hátæknifyrirtæki í Beijing í Kína, stofnað fyrir 14 árum af frumkvöðlinum og milljarðamæringnum Lei Jun og félögum hans. Á síðasta ári var fyrirtækið í þriðja sæti á lista þeirra sem seldu flesta farsímana - næst á eftir Samsung og Apple. Xiaomi framleiðir og selur margskonar annan háþróaðan tæknibúnað og neytendavörur en samdráttur …

Fyrir rúmu ári var greint frá því að þýska Lufthansa-samsteypan hefði áhuga á að kaupa 40 prósenta hlut í ítalska þjóðarflugfélaginu ITA en niðurstaða hefur ekki enn fengist. Í janúar hóf Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins rannsókn á samkeppnisáhrifum þess að Þjóðverjarnir eignuðust stóran hlut í ítalska flugfélaginu sem lengi hefur verið stjórnvöldum á Ítalíu höfuðverkur.  Nú í …

Fyrir mánuði sendi Storytel frá sér fréttatilkynningu þar sem kynnt var ný þjónusta fyrir notendur. Brátt eiga hlustendur hljóðbóka möguleika á að velja nýjan lesara ef þeim líkar ekki innlesturinn. Valraddirnar eru allar skapaðar af vélmennum eða svokölluðum gervigreindarupplesurum.  Þetta nýja verkfæri Stoyrtel er tekið í gagnið vegna þess að 89 prósent af þeim sem …