Kröfuharðir Eurovision aðdáendur bóki hótelherbergi sem fyrst

kiev turisti 1

Það eru 233 dagar í Eurovision taki yfir höfuðborg Úkraínu. Framkvæmdastjóri ferðamálaráðs borgarinnar mælir með að áhugasamir hugi að gistingu sem fyrst.
Það hefur legið ljóst fyrir frá því um miðjan maí að Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva fer fram í Úkraínu á næsta ári. Þar í landi hafa hins vegar verið vangaveltur í allt sumar um hvort halda ætti keppnina í Kænugarði, í Odessa við Svartahafið eða í Dnipropetrovsk. Niðurstaðan liggur nú fyrir og var það höfuðborgin sem hneppti hnossið en íbúar hennar hafa mikla reynslu af gestgjafahlutverkinu í Eurovision því keppnin fór þar fram árið 2005 og unglingakeppnin árin 2009 og 2013.

Viðvörunin nær ekki til höfuðborgarinnar

Forsvarsmenn ferðamála í Kænugarði hafa fagnað þessari niðurstöðu valnefndarinnar enda binda þeir vonir við að með söngvakeppninni takist að rétta við orðspor borgarinnar. Það hefur nefnilega dregið verulega úr heimsóknum erlendra ferðamanna til Kænugarðs eftir byltinguna í ársbyrjun 2014 sem endaði með flótta fyrrum forseta landsins til Rússlands. Í kjölfarið hófust svo stríðsátök á Krímskaganum sem ennþá blossa upp með reglulegu millibili og þess vegna er nafn Úkraínu að finna á listum fjöldamargra vestrænna ríkja yfir lönd sem þegnunum er ráðlagt að halda sig fjarri. Sú viðvörun nær þó aðeins til austurhluta landsins en ekki höfuðborgarinnar.

Engin vandamál í kringum hátíðarhöld

Þrátt fyrir það þá á Anton Taranenko, forstöðumaður ferðamálaráðs Kænugarðs, von á að margir muni heimsækja borgina í tengslum við Eurovision. „Við búumst við því að hingað komi á bilinu 25 til 30 þúsund erlendir gestir þær tvær vikur sem keppnin stendur yfir og að til viðbótar muni 5 til 10 þúsund Úkraínumenn ferðast til borgarinnar til að taka þátt í gleðinni.“ Aðspurður um ástandið í borginni og landinu sjálfu segir Taranenko að í Úkraínu búi vinaleg þjóð og engin vandamál hafi komið upp í kringum þær hátíðir sem haldnar hafa verið í Kænugarði undanfarin misseri. Hann bætir því hins vegar við að lögregla verði mjög sýnileg í borginni í maí.

Vonast til að hótelverð hækki ekki mikið

Í byrjun þessa mánaðar heimsótti Túristi Kænugarð og getur vitnað um að þar fara erlendir ferðamenn um án vandræða jafnt að degi sem að kveldi, í það minnsta í miðborginni. Söngvakeppnin sjálf fer reyndar fram í ráðstefnuhöll á austurbakka Dniper árinnar en til að mynda er Sjálfstæðistorgið, Maidan Nezalezhnosti, á vesturbakkanum. En torgið er eiginlega miðpunktur borgarinnar og þar í kring er fjöldi gististaða, meðal annars útibú alþjóðlegra hótelkeðja. Og Taranenko ráðleggur þeim Íslendingum sem vilja búa á góðu hóteli í miðborginni að ganga frá pöntun sem fyrst. Hann segir þó eiga von á að framboð á gistingu verði mikið og að verðskrár hótelanna muni ekki rjúka upp vegna söngvakeppninnar.
Ekkert beint flug er í boði frá Íslandi til Úkraínu en flugfélag heimamanna, Ukraine Internationl Airlines, flýgur til margra þeirra borga sem eru hluti að leiðakerfi Keflavíkurflugvallar. Þannig er t.a.m. hægt að fá fljúga með félaginu frá London, Amsterdam, Berlín, Stokkhólmi og Helsinki.