Manhattan er þeirra Reykjavík

newyork loft Troy Jarrell

Í New York mun framboð á gistingu aukast verulega á næstu misserum og árum og þar freista ferðafrömuðir þess að fá túrista til að dreifa sér betur um borgarlandið. Í New York mun framboð á gistingu aukast verulega á næstu misserum og árum og þar freista ferðafrömuðir þess að fá túrista til að dreifa sér betur um borgarlandið.
Íslenskir hótelstjórar eru ekki þeir einu sem sjá fram á mikla fjölgun gesta í nánustu framtíð því það gera starfsbræður þeirra í New York líka. Þar í borg stendur nefnilega til að fjölga hótelherbergjum úr 109 þúsund í 135 þúsund á næstu þremur árum. Skiptist viðbótin á 139 hótel, þar af eru 74 á Manhattan og 24 í Brooklyn samkvæmt því sem kom fram í máli forsvarsmanna ferðamála borgarinnar með norrænum blaðamönnum í Stokkhólmi í vikunni.
Búist er við að met verið sett í fjölda ferðamanna í New York í ár og þeir verði rétt um 60 milljónir og þar af tæpar 13 milljónir frá útlöndum. Í hópi erlendra túrista eru Bretar fjölmennastir og þar á eftir koma Brasilíumenn og Kínverjar.

Parísarhjól Staten Island

Hér á landi hefur umræða um betri dreifingu ferðamanna um landið verið hávær um langt skeið þar sem gististaðir á höfuðborgarsvæðinu eru almennt betur nýttir en þeir sem eru út á landi. Í heimsborginni New York eiga ferðafrömuðir við álíka vandamál að etja því þar vilja ferðamenn nefnilega helst halda sig á Manhattan en veita hinum fjórum hlutum borgarinnar; Queens, Brooklyn, Staten Island og Bronx minni athygli. Vonast er til að fjölbreyttari afþreying, ný hótel og veitingastaðir verði til þess að vinda ofan af þessari hefð og til að mynda á að reisa risastór Parísarhjól á Staten Island og opna „Outletverslanir“ til að fá ferðamenn til að stíga þar á land.

Janúar erfiður

Líkindunum með viðfangsefnum ferðaþjónustunnar á Íslandi og New York líkur ekki þar því fyrstu vikur hvers árs er tómlegt um að lítast á gististöðum í New York. Þá er margt reynt til að fá fleiri ferðamenn til að gefa borginni gaum, til að mynda með sérkjörum á veitingastaði og leikhús og eins mun það ekki vera óalgengt að hótelstjórar á Manhattan og nágrenni lækki verðskrár sínar um allt að helming í janúar og jafnvel inn í febrúar.