Lengd dvalarinnar hefur mikil áhrif á fargjöld Icelandair

Farmiði með Icelandair getur þrefaldast í verði ef flogið er heim sama dag en hægt er að spara stórar upphæðir með því að blanda saman flugfélögum.

icelandair 767 757

Það eru kannski ekki margir farþegar á Keflavíkurflugvelli sem fljúga út að morgni og heim síðar sama dag. Sá kostur er þó fyrir hendi því Icelandair býður upp á tvær eða fleiri ferðir innan sama dags til nokkurra borga allt árið um kring. Það er hins vegar dýrt að bóka svona miða og til að mynda kostar í dag 127.505 krónur að kaupa far til London eftir tvær vikur, 9. nóvember, og heim um kvöldið. Þar af kostar morgunflugið til London 61.015 krónur en það lækkar niður í 38.515 krónur ef gist er eina nótt í London. Ef farþeginn dvelur hins vegar úti fram til sunnudagsins 13. nóvember er sætið í morgunflugið hins vegar orðið þrefalt ódýrara en það hefði verið ef heimferðin væri samdægurs. Þessar sveiflur hafa mikil áhrif á heildarverðið eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan.
Þess ber þó að geta að þegar flogið er með Icelandair báðar leiðir, innan sama dags, er hagstæðara að kaupa miða á Economy Comfort farrými heldur en á því ódýrasta. Þá fylgir matur og aukafarangur með í kaupunum og hægt er að breyta ferðatilhögun.

Breytingar með lággjaldaflugfélögunum

„Fargjöldin hjá okkur, eins og öðrum, fara eftir bókunarstöðu, framboði og eftirspurn á hverjum tíma og dýrari fargjöld hafa yfirleitt í sér meiri sveigjanleika. Við hvetjum gjarnan viðskiptavini til að velja fremur eina „vöru“ en aðra, t.d. að bjóða fram og til baka fargjöld á betra verði en einnar leiðar fargjöld, og svo framvegis. Það er gert til þess að ná fram sem bestri nýtingu flugsæta,“ segir Guðjón Arngrímsson, talsmaður Icelandair, aðspurður ástæður þessar verðmunar.
Að verðleggja farmiða með þessum hætti hefur lengi tíðkast í ferðageiranum þó dregið hafi úr þessu með tilkomu lággjaldaflugfélaganna. Stjórnendur þeirra hafa nefnilega ekki tekið upp þennan sið og verðskrár margra hefðbundinna flugfélaga hafa lagað sig að breyttum markaði. Þannig borgar farþegi sem flýgur með SAS frá Kaupmannahöfn til London þann 9. nóvember það sama fyrir morgunflugið hvort sem hann kemur heim um kvöldið, næsta dag eða eftir nokkrar nætur. Sama á við hjá hinu hollenska KLM en hins vegar eru verðskrár British Airways og Lufthansa með álíka sniði og hjá Icelandair samkvæmt athugun Túrista.

108 þúsund króna verðmunur

Með aukinni samkeppni í flugi til og frá Íslandi þá bjóðast farþegum fleiri valkostir og til að mynda getur sá sem ætlar til London að morgni 9. nóvember og heim um kvöldið lækkað farið úr 127.505 kr. í 52.760 kr. með því að kaupa morgunflugið hjá WOW air en fljúga með Icelandair heim. Einnig er hægt að fljúga til Íslands frá London seinnipartinn með erlendum flugfélögum en þá verður dvölin í London mjög stutt og það er ólíklega fýsilegur kostur þar sem ferðalög til og frá flugvelli geta verið tímafrek o.s.frv.
En þrátt fyrir að í dag bjóði fimm flugfélög upp á áætlunarflug héðan til London þá hefur Icelandair verið það eina með kvöldflug frá London allan ársins hring. Brátt verður þess háttar einnig í boði hjá WOW air yfir lengra tímabil en áður og eins og staðan er í dag þá getur þessi aukna samkeppni lækkað ferðakostnaðinn hjá þeim sem þurfa út og heim aftur samdægurs. Þann 9. mars nk. kostar t.d. 19.997 krónur að fljúga með WOW báðar leiðir en sex sinnum meira með Icelandair eða 127.505 krónur. Þó ber að hafa í huga að sá sem kaupir svo dýran miða getur valið sér sæti á Economy Comfort farrými, má taka með sér tvær töskur, fær fría máltíð og getur gert breytingar á ferðaáætluninni en fyrir það borgar viðkomandi nærri 108 þúsund krónur aukalega. Farmiðaverð WOW air til London í mars er líka mjög lágt eins og sjá má á þessu dæmi hér að ofan. Á öðrum dögum er munurinn vafalítið minni en dagsetningarnar sem notaðar eru í þessum samanburði voru valdar af handahófi, sú fyrri er eftir 2 vikur (9. nóv) og sú seinni fjórum mánuðum síðar (9. mars).