Hlutfall íslenskra gesta á íslenskum hótelum hefur hríðfallið

hotelrum nik lanus

Þó heimamenn bóki nú tvöfalt fleiri gistingar á íslenskum hótelum þá hefur vægi þeirra lækkað mjög hratt. Þó heimamenn bóki nú tvöfalt fleiri gistingar á íslenskum hótelum þá hefur vægi þeirra lækkað mjög hratt.
Á árunum fyrir síðustu aldarmót var fjórði hver gestur á hótelum landsins Íslendingur. Hlutfallið var komið undir fimmtung árið 2001 en fram að hruni fór vægi íslenskra gesta vaxandi á ný. Síðustu ár hefur erlendum ferðamönnum hér á landi hins vegar fjölgað um 20 til 30 prósent á milli ára og á sama tíma hefur vægi íslenskra gesta snarminnkað þó þeir bóki í dag tvöfalt fleiri gistingar á íslenskum hótelum en þeir gerðu árið 1997 samkvæmt tölum Hagstofunnar.

Allt annað mynstur í Skandinavíu

Þessi þróun hefur haldið áfram því fyrstu átta mánuði þessa árs hefur aðeins tíunda hvert hótelherbergi á landinu verið leigt út til Íslendinga en hlutfallið var einu prósentustigi hærra á sama tíma í fyrra. Í Danmörku hefur vægi danskra hótelgesta hins vegar verið 54 prósent í ár og hlutdeild heimamanna er ennþá hærra í Noregi og Svíþjóð. Líklega hefur stærð þessara tveggja landa mikið að segja í þessu samhengi en hvað sem því líður er ljóst að heimamarkaðurinn er miklu þýðingarmeiri fyrir skandinavíska hótelstjóra en þá íslensku samkvæmt gistináttatalningum hagstofa þessara landa.

Hlutfallið dregst líka saman í flugvélum

Í fyrra komu tæplega 1,3 milljónir ferðamanna hingað eða um fjórfaldur sá fjöldi sem býr í landinu og það gefur því augaleið að vægi íslenskra viðskiptavina dregst ekki aðeins saman á hótelum heldur líka hjá öðrum fyrirtækjum í ferðaþjónustu. Jafnvel þó við ferðumst meira. Árið 2006 voru farþegar búsettir á Íslandi til að mynda 28 prósent þeirra sem flugu með Icelandair en í dag er hlutfallið helmingi lægra og aðeins sjöunda hvert sæti í þotum flugfélagsins er í dag skipað Íslendingi. 
Og það segir kannski sitthvað um breytt landslag að árlegar markaðsherferðir sem höfðu þann tilgang að fá Íslendinga til að ferðast innanlands, eins og Ísland er með´etta, heyra nú sögunni til og áskrift að léni átaksins, Islandermedetta.is, hefur ekki verið endurnýjuð.