Reykvísk hótel þau dýrustu á Norðurlöndum

reykjavik vetur

Hótelgestir í Reykjavík í október borguðu nokkru meira en þeir sem voru á ferðinni á hinum Norðurlöndunum. Hótelgestir í Reykjavík í október borguðu nokkru meira en þeir sem voru á ferðinni á hinum Norðurlöndunum.
Að jafnaði kostaði ein nótt á reykvísku hótelherbergi tæpar 25 þúsund krónur í október og hafði verðið hækkað um fjórðung frá sama tíma í fyrra. Verðskrár hótela í Stokkhólmi, Kaupmannahöfn, Ósló og Helsinki hafa hins vegar lækkað samkvæmt athugun bókunarsíðunnar Trivago sem er ein sú umsvifamesta í heimi. „Það verður sífellt vinsælla að ferðast til óvenjulegra áfangastaða enda munum við lengur eftir þess háttar reisum. Ísland hefur verið sögusvið í fjöldamörgum sjónvarpsþáttum síðustu ár og þar hefur stórkostleg náttúra landsins fengið að njóta sín,“ segir Emelie Zander, talskona Trivago, aðspurð um hverjar hún telji ástæður hækkunar hótelverðs á Íslandi.

Vekur athygli í Svíþjóð

Verðhækkunin í Reykjavík nemur hins vegar 45 prósenum milli ára  í sænskum krónum talið enda hefur sú sænska dalað nokkuð síðustu misseri á meðan sú íslenska hefur styrkst. Um þetta var fjallað í Dagens Industri, í útbreiddasta viðskiptadagblaði Svíþjóðar, og þar segir að tölurnar séu vísbending um að útsalan sé búin á ferðamannalandinu Íslandi. Það virðist þó ekki hafa dregið úr áhuga Svía á að heimsækja Ísland því fyrstu níu mánuði ársins komu hingað 25,2% fleiri sænskir ferðamenn en á sama tíma í fyrra samkvæmt talningu Ferðamálastofu. 

Ódýrara að gista í útlöndum

Íslenskir hótelgestir þurfa hins vegar ekki að borga jafn mikið í dag og þeir gerðu fyrir ári síðan þegar þeir bókuðu gistingar í hinum norrænu höfuðborgunum. Því eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan þá hefur hótelverðið farið lækkandi, í íslenskum krónum talið, síðastliðið ár og sem fyrr er Helsinki hagstæðasti kosturinn. Verðið þar er þriðjungi lægra en hér á landi. Gistingin í Ósló er hins vegar ódýrari en í höfuðborgum Svía og Dana.
Hafa ber í huga að þessi meðalverð byggja á bókunum sem gerðar eru í gegnum hótelleit Trivago sem er mjög umsvifamikið bókunarfyrirtæki og jafnframt systurfyrirtæki Expedia og Hotels.com.