Vonar að Icelandair og WOW sláist í hóp með stærstu flugfélögum Evrópu

icelandair wow

Talsmaður Airlines for Europe segist gera sér vonir um að brátt verði alla vega nafn eins íslensks flugfélags að finna í félagatalinu. Talsmaður Airlines for Europe segist gera sér vonir um að brátt verði alla vega nafn eins íslensks flugfélags að finna í félagatalinu.
Fimm stærstu flugfélög Evrópu mynduðu í ársbyrjun hagsmunasamtökin Airlines for Europe, eða A4E. Innan vébanda þess eru hefðbundin flugfélög eins og Lufthansa, British Airways, KLM og Air France en einnig Ryanair, easyJet og Norwegian, þrjú umsvifamestu lággjaldaflugfélög álfunnar.
Forsvarsmenn þessara risafyrirtækja hafa nú snúið bökum saman til að standa vörð um hagsmuni sína gagnvart evrópskum og alþjóðlegum stofnunum eins og segir í tilkynningu frá A4E. Þar kemur einnig fram að baráttumálin séu aðallega þrjú; lækkun flugvallargjalda, skilvirkt loftrými og niðurfelling ónauðsynlegra skatta. 

Í viðræðum við Íslendinga

Verkföll flugumferðarstjóra víðs vegar um Evrópu hafa hins vegar verið helsta viðfangsefni ársins hjá starfsmönnum A4E af heimasíðu samtakanna að dæma. Þessar kjaradeilur hafa nefnilega valdið töluverðu raski á flugumferð í álfunni síðustu misseri og reynst flugfélögunum dýrkeypt. Það hafa forsvarsmenn Icelandair og WOW air einnig fengið að reyna því í sumarbyrjun setti yfirvinnubann íslenskra flugumferðarstjóra flugáætlun flugfélaganna úr skorðum. Og þess er kannski ekki langt að bíða að íslensku flugfélögin gerist aðilar að hinum nýstofnuðu hagsmunasamtökum að sögn Aare Dünhaupt, talsmanns A4E. Í samtali við Túrista segir hann að viðræður séu í gangi við forsvarsmenn Icelandair og WOW air og að hann vonist til að þau sláist í hópinn á næstu misserum. Dünhaupt bætir því við að nú sé verið að kynna samtökin fyrir stjórnendum flugfélaga víðs vegar um Evrópu og hann eigi því von á að nýjum meðlimum frá fleiri löndum.
Sem fyrr segir eru flugfélögin innan A4E mjög umsvifamikil og árlega ferðast með þeim um 500 milljón farþega. Til samanburðar má nefna að í ár er gert ráð fyrir að samanlagður farþegafjöldi Icelandair og WOW air verði um eitt prósent af þessari tölu eða 5,3 milljónir farþega.