Keflavíkurflugvöllur orðin fimmta fjölfarnasta norræna flughöfnin

kef farthegar

Forsvarsmenn flugvallanna í Bergen og Gautaborg segjast hafa fylgst með örum vexti í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og segja árangurinn aðdáunarverðan. Forsvarsmenn flugvallanna í Bergen og Gautaborg segjast hafa fylgst með örum vexti í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og segja árangurinn aðdáunarverðan.
Í hittifyrra komst Keflavíkurflugvöllur upp fyrir flugvellina í Billund og Bromma á listanum yfir stærstu flugstöðvar Norðurlanda og endaði sá íslenski í níunda sæti þegar árið 2014 var gert upp. Á síðasta ári hélt farþegum áfram að fjölga mun hraðar hér á landi en á hinum Norðurlöndunum og þá fór Leifsstöð fram úr flugstöðvunum í Stavanger og Þrándheimi og var orðin sjöunda fjölfarnasta flugstöð Norðurlanda. Þriðja árið í röð hefur Keflavíkurflugvöllur stokkið upp um tvö sæti á listanum því eftir fyrstu níu mánuði þessa ára hafa fleiri farið um þann íslenska en Flesland í Bergen og Landvetter í Gautaborg. Ekki er útlit fyrir annað en að Keflavíkurflugvöllur haldi fimmta sætinu út árið þar sem fyrstu níu mánuði þessa árs hafa 5,3 milljónir farið um Keflavíkurflugvöll tæpar 5 milljónir um Landvetter og 4,5 milljónir um Flesland. Bilið er því orðið breitt en það í langt í fjórða sætið því þar situr Vantaa í Helsinki og í fyrra flugu um 16 milljónir til og frá þeim flugvelli. 

Áðdáunarverður vöxtur

Forsvarsmenn flugvallanna í Gautaborg og í Bergen samgleðjast íslenskum starfsbræðrum sínum með þennan árangur. „Við fylgjust með þróun mála á öllum flugvöllum Norðurlanda og vöxturinn á Keflavíkurflugvelli er aðdáunarverður og full ástæða til að óska starfsfólkinu til hamingju með þessar fínu tölur,“ segir Johan Live, talsmaður Swedavia, sem á og rekur alla helstu flugvelli í Svíþjóð. Að sögn Live hefur einnig verið mikil aukning á sænskum flugvöllum síðustu ár og til að mynda fjölgaði farþegum á Landvetter í Gautaborg um nærri fimmtung í fyrra og búist er við að farþegar verði 6,4 milljónir í ár. Cathrine F. Framholt, upplýsingafulltrúi Flesland flugvallar í Bergen, segist einnig dást að framgangi Keflavíkurflugvallar. „Kynningin á Íslandi sem ferðamannastað hefur líka veitt okkur innblástur. Ísland er engu líkt og hefur með sinni fallegu náttúru náð að verða einn vinsælasti ferðamannastaður í heimi. Það er líka áhugavert að upplifa hversu vel Íslendingum gengur í gestgjafahlutverkinu og ferðalag til Íslands stendur undir væntingum. Við óskum því öllum til hamingju með velgegnina.“ 

Stóraukning í flugi milli Íslands og Bergen

Þann 17. ágúst á næsta ári verður ný flugstöð við Flesland tekin í notkun en flugfarþegum í Bergen hefur fjölgað um nærri helming síðastliðinn áratug. Að sögn Framholt hefur aukning verið mest í millilandaflugi. „Bergen og firðirnir eru, eins og Ísland, spennandi áfangastaður fyrir túrista. Í samstarfi við flugfélögin vinnum við því stöðugt að því að bæta framboð á ferðum hingað og í dag er í boði beint flug héðan inn á stóra flugvelli sem eru með góðar tengingar við áfangastaði út um allan heim. Við vonumst líka eftir vexti í umferðinni milli Bergen og Reykjavíkur og sjáum að áætlunarflug Icelandair og Norwegian á þessari leið hefur verið mikilvægt fyrir báðar borgir,“ segir Framholt. Hún bætir því við að í ár hafi um 34 þúsund farþegar flogið milli Íslands og Bergen sem er nærri þrefalt fleiri en árið 2012.