Ljósmyndari á heimavelli í Chicago

Daniel Kelleghan er á nær stanslausu flakki um heiminn en er þess á milli í Chicago. Hér mælir hann með nokkrum stöðum í borginni sinni fyrir íslenska túrista.

danielkelleghan

Ungur ljósmyndari frá Chicago setti sér það markmið að heimsækja nýtt land í hverjum mánuði. Þessi metnaðarfullu áform virðast vera að ganga upp því síðustu misseri hefur Daniel Kelleghan farið víða um heim og dvaldi hann meðal annars hér á landi í vor. 113 þúsund manns fylgjast með heimshornaflakki Kelleghan á Instagram enda hentar sá miðill fólki með gott auga eins og sjá má á myndum Kelleghan. Þegar ljósmyndarinn er ekki á ferðinni er hann á heimavelli í Chicago en þangað hóf Icelandair einmitt að fljúga í vor. Túristi hitti Kelleghan og bað hann um að mæla með hinu og þessu fyrir íslenska ferðalanga í borginni við Michigan vatn.

Ertu með einhverjar sérstakar venjur þegar þú kemur heim til þín í Chicago?
Algjörlega! Á sumrin elska ég að koma heim og fara í laugina á Soho House. Þetta er skemmtilegur staður til að hlaða batteríin á og þar get ég gengið að því sem vísu að hitta vini og kunningja og fá að heyra af ferðalögum þeirra og verkefnunum sem þau eru að vinna að.

Í hvaða hluta borgarinnar myndir þú mæla með því að túristar í Chicago gisti?

Flest hótelin eru í miðborginni en ég myndi samt sem áður mæla með Logan Square at Longman and Eagle. Þetta býður upp á aðeins öðruvísi upplifun en hin hefðbundna gisting gerir og staðsetningin er frábær, á svæði þar sem úrvalið af góðum mat er best í borginni.

Hvaða staðir í Chicago standa undir því að vera „skyldustopp”

Að ganga eða hjóla meðfram Michigan vatninu er algjörlega nauðsynlegt og útsýnið frá Cindy´s On The Roof á Chicago Athletic Hotel er líka stórkostlegt. Ferris Wheel opnar brátt á ný og það á víst líka að vera frábært.

Hvar eru bestu staðirnir fyrir bröns og hádegismat?

Prófið hina ótrúlegu Avocado Toast á The Winchester og heitt súkkulaði á Wicker Park veldur engum vonbrigðum.

Ef mig langar út að borða á frekar látlausum stað hvert fer ég þá?

Þá mæli ég með High Five Ramen (því miður fá sæti og engar borðapantanir) en á meðan beðið er eftir borði þá fer ég í drykk á Soho House.

En ef ég kýs að versla í minni búðum í stað þess að fara í verslunarmiðstöð?

Ég elska sérstaklega Andersonville. Notre Shop er frábær herrafataverslun og Wolly Mammoth is er einstök antik- og uppstoppunarbúð, stórskrítin blanda. Norcross and Scott er með sérstaklega vel valið úrval af skandinavískum heimilisvörum og í Scout finnur fólk með alls kyns smekk vel uppgerðar antikvörur.

Hverjir eru hápunktar allra þessara ferðalaga sem þú hefur verið á?
Það sem stendur upp úr er kannski ekki það sem ég hafði ímyndað mér fyrir fram. Hápunktarnir er nefnilega öll sú þekking sem maður aflar sér frá hinum ýmsu hlutum heimsins, eitthvað sem ég hafði ekki reiknað með áður en ég lagði í hann. Það hljómar kannski klént en það er máttur í þekkingunni og að mín reynsla er sú að ferðalög eru besta og skilvirkast leiðin til að verða sér út um hana.
Hér má sjá Instagram-síðu Daniel Kelleghan