Áfengissala í Fríhöfninni dregst saman

frihofnin

Skiptar skoðanir um ágæti breytinga  á tollkvóta ferðamanna. Tollkvóti ferðamanna miðast ekki lengur við lítra heldur áfengiseiningar. Flugfarþegar kaupa því minna af bjór við komuna til landsins og það mun hafa áhrif á íslenska ölframleiðslu að mati framkvæmdastjóra Fríhafnarinnar.
Þann 17. júní gengu í gildi nýjar reglur um tollfrjálsan innflutning á áfengi. Nú þurfa flugfarþegar ekki lengur að blanda saman sterku áfengi, léttvíni og bjór í samræmi við fimm ólíkar samsetningar líkt og tíðkaðist áður. Í staðinn geta þeir nýtt allan tollinn til kaupa á aðeins sterku áfengi, léttvíni eða bjór og miðast hámarkið við 6 einingar. Ein áfengiseining er þá 3 lítrar af bjór, 0,75cl af léttvíni eða 0,25cl af sterkara áfengi.
Eins lítra flaska af sterku áfengi telst þá vera fjórar einingar en kippa af hálfslítra bjór er 1 eining.

Bjórsala dregst saman

Nú er komin fjögurra mánaða reynsla á þetta fyrirkomulag og að sögn Þorgerðar Þráinsdóttur, framkvæmdastjóra Fríhafnarinnar, er raunin sú að nú kaupir hver viðskiptavinur Fríhafnarinnar færri áfengislítra en fyrir breytingu. Í frumvarpi fjármálaráðherra um nýjan tollkvóta kom hins vegar fram að búast mætti við aukinni sölu í komuverslun Fríhafnarinnar í kjölfar breytinganna. Þorgerður segir ástæðuna fyrir þessari öfugu þróun vera þá að tvær fyrstu leiðirnar í gamla fyrirkomulaginu hafi verið þær vinsælustu hjá flugfarþegum en þær báðar innihalda of margar áfengiseiningar m.v. núverandi reglur (sjá töflu hér fyrir neðan). „Þeir sem notfæra sér aukninguna sem varð ef keyptur er eingöngu bjór eru ekki nógu margir til að vega upp á móti þeim sem kaupa helst minni bjór með sterku og léttu áfengi. Þetta hefur leitt til þess að bjór hefur minnkað nokkuð í magni sem hlutfall af heildarsölu. Sjötíu prósent af þeim bjór sem seldur er í komuverslun Fríhafnarinnar er innlend framleiðsla og því hefur þetta nokkur áhrif á innlenda bjórframleiðendur og mun til lengri tíma geta haft töluverð áhrif á sölu á íslenskum bjór,” bætir Þorgerður við.

Tímafrekara að útskýra nýju reglurnar

Í lagafrumvarpinu um breytingar á tollkvótanum, sem lagt var fyrir Alþingi í vor, kom fram að þáverandi fyrirkomulag hafi verið flókið í framkvæmd og tímafrekt hafi verið að veita leiðbeiningar um það, einkum til ferðamanna. „Með það fyrir augum að einfalda og auka skilvirkni framkvæmdarinnar, þ.e. leiðbeiningagjafar og eftirlits, er lagt til að tekin verði upp ný viðmið um gjaldfrjálsan innflutning ferðamanna, skipverja og flugverja á áfengi,” sagði jafnframt í frumvarpinu. Þetta hefur ekki gengið eftir að sögn Þorgerðar. „Raunin er hins vegar sú að nýja einingakerfið er a.m.k. í fyrstu miklu flóknara því samsetningarmöguleikarnir eru svo margir. Einingarnar miðast við algengar sölueiningar en mjög oft er sölueining t.d. 1,3 eining eða 0,7 eining. Þetta vefst fyrir viðskiptavinum en verður hugsanlega auðveldara þegar meiri reynsla er komin á einingakerfið. Það sem af er hefur vinna Fríhafnarstarfsmanna við að útskýra tollkvótann verið miklu meiri en það sem áður var.”

Þeir óánægðu eru háværari hópur

Í heildina segir Þorgerður að reynslan af nýju reglunum sé bæði jákvæð og neikvæð. Helsti gallinn er sá að tollkvótinn minnkaði miðað við tvær vinsælustu leiðirnar í gamla kerfinu en aftur á móti er almenn ánægja með þann aukna sveigjanleika sem nýja fyrirkomulagið býður upp á. Hún segir þó að óánægja þeirra sem upplifa skerðingu sé miklu meiri og háværari en ánægja þeirra sem nýta sér aukninguna.

Sendu inn tilnefningar til Íslensku ferðaverðlaunanna