Samfélagsmiðlar

Áfengissala í Fríhöfninni dregst saman

frihofnin

Skiptar skoðanir um ágæti breytinga  á tollkvóta ferðamanna. Tollkvóti ferðamanna miðast ekki lengur við lítra heldur áfengiseiningar. Flugfarþegar kaupa því minna af bjór við komuna til landsins og það mun hafa áhrif á íslenska ölframleiðslu að mati framkvæmdastjóra Fríhafnarinnar.
Þann 17. júní gengu í gildi nýjar reglur um tollfrjálsan innflutning á áfengi. Nú þurfa flugfarþegar ekki lengur að blanda saman sterku áfengi, léttvíni og bjór í samræmi við fimm ólíkar samsetningar líkt og tíðkaðist áður. Í staðinn geta þeir nýtt allan tollinn til kaupa á aðeins sterku áfengi, léttvíni eða bjór og miðast hámarkið við 6 einingar. Ein áfengiseining er þá 3 lítrar af bjór, 0,75cl af léttvíni eða 0,25cl af sterkara áfengi.
Eins lítra flaska af sterku áfengi telst þá vera fjórar einingar en kippa af hálfslítra bjór er 1 eining.

Bjórsala dregst saman

Nú er komin fjögurra mánaða reynsla á þetta fyrirkomulag og að sögn Þorgerðar Þráinsdóttur, framkvæmdastjóra Fríhafnarinnar, er raunin sú að nú kaupir hver viðskiptavinur Fríhafnarinnar færri áfengislítra en fyrir breytingu. Í frumvarpi fjármálaráðherra um nýjan tollkvóta kom hins vegar fram að búast mætti við aukinni sölu í komuverslun Fríhafnarinnar í kjölfar breytinganna. Þorgerður segir ástæðuna fyrir þessari öfugu þróun vera þá að tvær fyrstu leiðirnar í gamla fyrirkomulaginu hafi verið þær vinsælustu hjá flugfarþegum en þær báðar innihalda of margar áfengiseiningar m.v. núverandi reglur (sjá töflu hér fyrir neðan). „Þeir sem notfæra sér aukninguna sem varð ef keyptur er eingöngu bjór eru ekki nógu margir til að vega upp á móti þeim sem kaupa helst minni bjór með sterku og léttu áfengi. Þetta hefur leitt til þess að bjór hefur minnkað nokkuð í magni sem hlutfall af heildarsölu. Sjötíu prósent af þeim bjór sem seldur er í komuverslun Fríhafnarinnar er innlend framleiðsla og því hefur þetta nokkur áhrif á innlenda bjórframleiðendur og mun til lengri tíma geta haft töluverð áhrif á sölu á íslenskum bjór,” bætir Þorgerður við.

Tímafrekara að útskýra nýju reglurnar

Í lagafrumvarpinu um breytingar á tollkvótanum, sem lagt var fyrir Alþingi í vor, kom fram að þáverandi fyrirkomulag hafi verið flókið í framkvæmd og tímafrekt hafi verið að veita leiðbeiningar um það, einkum til ferðamanna. „Með það fyrir augum að einfalda og auka skilvirkni framkvæmdarinnar, þ.e. leiðbeiningagjafar og eftirlits, er lagt til að tekin verði upp ný viðmið um gjaldfrjálsan innflutning ferðamanna, skipverja og flugverja á áfengi,” sagði jafnframt í frumvarpinu. Þetta hefur ekki gengið eftir að sögn Þorgerðar. „Raunin er hins vegar sú að nýja einingakerfið er a.m.k. í fyrstu miklu flóknara því samsetningarmöguleikarnir eru svo margir. Einingarnar miðast við algengar sölueiningar en mjög oft er sölueining t.d. 1,3 eining eða 0,7 eining. Þetta vefst fyrir viðskiptavinum en verður hugsanlega auðveldara þegar meiri reynsla er komin á einingakerfið. Það sem af er hefur vinna Fríhafnarstarfsmanna við að útskýra tollkvótann verið miklu meiri en það sem áður var.”

Þeir óánægðu eru háværari hópur

Í heildina segir Þorgerður að reynslan af nýju reglunum sé bæði jákvæð og neikvæð. Helsti gallinn er sá að tollkvótinn minnkaði miðað við tvær vinsælustu leiðirnar í gamla kerfinu en aftur á móti er almenn ánægja með þann aukna sveigjanleika sem nýja fyrirkomulagið býður upp á. Hún segir þó að óánægja þeirra sem upplifa skerðingu sé miklu meiri og háværari en ánægja þeirra sem nýta sér aukninguna.

Sendu inn tilnefningar til Íslensku ferðaverðlaunanna
Nýtt efni

Mitt inn í dimmum Grünheideskógi skammt frá Berlín hafa 80 manneskjur komið sér fyrir í kofum sem þau hafa byggt hátt uppi trjánum. Kofaþorpið eru bækistöðvar mótmælenda eða aðgerðarsinna eins og þau kalla sig. Einmitt inni í þessum sama skógi hyggst bandaríski rafmagnsbílaframleiðandinn Tesla stækka svokallaða gígaverksmiðju sem var tekin var í notkun í mars …

Lufthansa hefur náð samkomulagi við verkalýðsfélagið Verdi og þar með er endi bundinn á langa vinnudeilu við flugvallarstarfsfólk þýska flugfélagsins. Flugáætlun Lufthansa fer því ekki úr skorðum yfir páskana líkt og útlit var fyrir en félagið er með þrjár flugferðir til Íslands á áætlun sinni yfir hátíðarnar. Hinn nýi samningur Verdi og Lufthansa kemur í …

Það voru 561 þúsund skráðar gistinætur hér á landi í febrúar sem er um 2,5 prósent samdráttur í samanburði sama tímabil í fyrra. Ef tekið er tillit til hlaupársdagsins þá var fækkunin ennþá meiri eða nærri 6 af hundraði. Á hótelum landsins voru gistinæturnar 373 þúsund sem er ögn meira en í febrúar í fyrra …

Þegar Hagstofan leggur mat á breytingar á verðlagi þá er meðal annars horft til fargjalda, bæði í flug innanlands og til útlanda. Samkvæmt nýjum verðmælingum Hagstofunnar þá lækkaði farið frá Keflavíkurflugvelli um 5 prósent í mars en farþegar í innanlandsflugi þurftu að borga 16 prósent meira en í fyrra. Á sama tíma hækkaði verðlag í …

„Undanfarna mánuði hafa stjórnmálamenn og verkalýðsforingjar viðrað hugmyndir um að hækka virðisaukaskattshlutfall ferðaþjónustu í 24%. Almenn greining á grundvelli viðtekinnar þjóðhagfræði, sem SAF hefur látið vinna, bendir til þess að slík hækkun myndi almennt hækka verðlag og þar með verðbólgu á viðkomandi ári, lækka veltu í ferðaþjónustu, veikja samkeppnishæfni hennar, lækka verga landsframleiðslu og auka …

Xiaomi er hraðvaxta hátæknifyrirtæki í Beijing í Kína, stofnað fyrir 14 árum af frumkvöðlinum og milljarðamæringnum Lei Jun og félögum hans. Á síðasta ári var fyrirtækið í þriðja sæti á lista þeirra sem seldu flesta farsímana - næst á eftir Samsung og Apple. Xiaomi framleiðir og selur margskonar annan háþróaðan tæknibúnað og neytendavörur en samdráttur …

Fyrir rúmu ári var greint frá því að þýska Lufthansa-samsteypan hefði áhuga á að kaupa 40 prósenta hlut í ítalska þjóðarflugfélaginu ITA en niðurstaða hefur ekki enn fengist. Í janúar hóf Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins rannsókn á samkeppnisáhrifum þess að Þjóðverjarnir eignuðust stóran hlut í ítalska flugfélaginu sem lengi hefur verið stjórnvöldum á Ítalíu höfuðverkur.  Nú í …

Fyrir mánuði sendi Storytel frá sér fréttatilkynningu þar sem kynnt var ný þjónusta fyrir notendur. Brátt eiga hlustendur hljóðbóka möguleika á að velja nýjan lesara ef þeim líkar ekki innlesturinn. Valraddirnar eru allar skapaðar af vélmennum eða svokölluðum gervigreindarupplesurum.  Þetta nýja verkfæri Stoyrtel er tekið í gagnið vegna þess að 89 prósent af þeim sem …