Reykjavík á toppnum hjá Google

Mynd: Sigurjón Ragnar/sr-photos.com

Þeir fimm áfangastaðir sem eru á mestri uppleið hjá notendum leitarvélarinnar í Bandaríkjunum.
Fyrstu níu mánuði ársins komu hingað 325 þúsund bandarískir ferðamenn eða álíka margir og íbúar Íslands eru. Bandaríkjamenn eru fjölmennastir í hópi ferðamanna hér á landi og hefur þeim  fjölgað um ríflega sextíu af hundraði í ár. Og þessi mikli áhugi á Íslandi vestanhafs endurspeglast ekki aðeins í ferðamannatalningum því samkvæmt nýjum tölum frá Google þá er Reykjavík eitt þeirra fimm staðarheita sem er á mestri uppleið hjá notendum leitarvélarinnar í Bandaríkjunum. Á listanum eru líka borgirnar Havana, Toronto, Mexíkóborg og Tókýó en vinsældir Reykjavikur hafa aukist mest.

Áhugasamar um gönguferðir

Leitarvélarisinn Google veit ýmislegt um notendur sína og munu það helst vera barnlausar konur á aldrinu 25 til 34 ára sem búsettar eru á New York svæðinu sem leita eftir ferðatengdum upplýsingum um Reykjavík. Konurnar eru einnig líklegar til að vera áhugasamar um gönguferðir og fylgjast helst með gangi mála hjá hollenska flugfélaginu KLM. En KLM á í nánu samstarfi við Delta flugfélagið sem flýgur allt árið um kring héðan frá JFK flugvelli. Auk Delta flýgur Icelandair til JFK og Newark flugvallar og í næsta mánuði hefur WOW air áætlunarflug til síðarnefnda flugvallarins. Eins og kom fram í nýlegri verðkönnun Túrista á helgarfargjöldunum til New York í nóvember og desember þá munar oft tölurverðu á prísum flugfélaganna.