Skoða stofnun siglfirsks flugfélags

robert hotelsiglo

Róbert Guðfinnsson athafnamaður segir mikilvægt að landsbyggðin fá tengingu við millilandaflug og býður eftir að Siglufjarðarflugvöllur komist í gagnið á ný. Róbert Guðfinnsson athafnamaður segir mikilvægt að landsbyggðin fá tengingu við millilandaflug og býður eftir að Siglufjarðarflugvöllur komist í gagnið á ný.
Það er leit að alþjóðlegri flughöfn eins og Keflavíkurflugvelli þar sem aðeins er boðið upp á ferðir út í heim en ekkert innanlandsflug. Íbúar landsbyggðarinnar þurfa því margir hverjir að keyra mörg hundruð kílómetra til að komast í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og ferðamenn verða að fara fyrst til höfuðborgarinnar kjósi þeir að fljúga út á land. Þessi skortur á tengingu innanlands- og millilandaflugs er vandamál að mati Róberts Guðfinnssonar sem hefur beitt hefur sér fyrir mikilli uppbyggingu á Siglufirði síðustu ár og meðal annars reist Sigló Hótel. „Það er flestum ljóst sem þekkja til í ferðamennsku á Íslandi að mikið verk er fyrir höndum við að skipuleggja greinina þannig að öflug þjónusta sé til staðar og hámarksnýtni náist á fjárfestingar. Tengja þarf landsbyggðina inn á alþjóðaflugvöll með öflugu innanlandsflugi. Stóra torfan er komin á Keflavíkurflugvöll. Nú þarf bara réttu möskvastærðina í veiðafærin til að velja þá farþega sem fljúga á í tengiflugi út á land. Ef það verður ekki gert þá mun ferðaþjónustan út á landi byggjast á viðkomustaðar ferðamennsku en erfiðara verður að byggja upp áfangastaði ef að landsbyggðin þarf að lifa við slakar samgöngur.“

Tenging við alþjóðaflugvöll er forsenda

Í dag koma ferðamenn ekki fljúgandi til Siglurfjarðar því flugvelli bæjarins var lokað fyrir tveimur árum síðan. Róbert sér þó fram á breytingar. „Það hefur verið áhugavert að ræða þessi mál við öfluga stjórmálamenn. Þannig sá Ólöf Nordal innanríkisráðherra að þörf er á breytingum og í samgönguáætlun er nú gert ráð fyrir fjármagni til að hægt verði að koma Siglufjarðarflugvelli i gagnið aftur. Í framhaldinu munum við á Siglufirði skoða hvort við förum út í flugrekstur í innanlandsflugi, ein eða með öðrum.“ Hann bætir því við að tenging inn á alþóðaflugvöll yrði forsenda fyrir stofnun siglfirsks flugfélags.
Róbert er þó ekki sannfærður um að kosti þess að halda áfram uppbyggingu Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. „Vandræðagangurinn á Keflavíkurflugvelli í sumar er gott dæmi um það þegar reynt er að klastra í hlutina með bútasaum. Ef að áætlanir Icelandair og WOW ganga eftir um framtíðarvöxt félaganna í Atlantshafsflugi þá er fyrirséð að Keflavíkurflugvöllur verður í stöðugum breytingum og vandræðagangi næsta áratuginn. Eina raunhæfa lausnin er öflugur alþjóðaflugvöllur með góðri innanlandstengingu.“

Yrði gjörbylting fyrir ferðaþjónustuna 

Líkt og kom frá í viðtölum Túrista við Arnheiði Jóhannsdóttur framkvæmdastjóra Markaðsstofu Norðurlands og Pétur Snæbjörnsson á Hótel Reynihlíð við Mývatn þá telja þau einnig mikilvægt að bæta flugsamgöngur milli landsbyggðar og Keflavíkurflugvallar. „Ef við sem rekum þjónustu við ferðamenn í dreifðum byggðum myndum tengjast við alþjóðlegt samgöngukerfi myndi það gerbylta rekstrarumhverfi okkar, minnka árstíðasveifluna til mikilla muna, gera reksturinn aðbærari, skapa fleiri heilsársstörf, örva markaðsstarf, bæta búsetuskilyrði og svo mætti áfram lengi telja,” sagði Pétur.
Skortur á þessari samtengingu flugferða hér á landi þekkist ekki í löndunum í kringum okkur og til að mynda sagði framkvæmdastjóri ferðamálaráðs Finnlands í samtali við Túrista að hann ímyndaði sér að það myndi valda alvarlegum skaða á ferðaþjónstuframboðinu þar í landi ef það yrði nauðsynlegt að skipta um flugvöll í Helsinki til að komast í innanlandsflug. Og leiða má að því líkur að þetta fyrirkomulag sé mikil áskorun fyrir íslenska ferðaþjónustu því síðustu fimm ár hefur farþegum í innanlandsflugi fækkað en á sama tíma hefur farþegafjöldinn á Keflavíkurflugvelli nærri tvöfaldast. Þess ber þó að geta að fyrstu átta mánuði ársins fjölgaði farþegum í innanlandsflugi um 7 prósent en á Keflavíkurflugvelli nam aukningin 35 prósentum á sama tímabili samkvæmt flugtölum Isavia.