WOW bætir við írskum áfangastað

Hingað til hafa írsku flugfélögin Aer Lingus og Ryanair haldið uppi flugsamgöngum frá strandborginni Cork en á því verður breyting í vor. Hingað til hafa írsku flugfélögin Aer Lingus og Ryanair haldið uppi flugi frá strandborginni Cork en á því verður breyting í vor.
Á sama tíma og samgöngur milli Íslands og Bretlands stórjukust þá takmarkaðist framboð á flugi til Írlands lengi vel við leiguflug á vegum ferðaskrifstofa. Í sumarbyrjun 2014 hóf WOW air hins vegar heilsárs áætlunarflug til Dublin og hefur félagið jafnt og þétt fjölgað ferðunum þangað. Næsta vor aukast umsvif íslenska lággjaldaflugfélagsins á Írlandi enn frekar því þá fer WOW jómfrúarferð sína til borgarinnar Cork sem er við suðurströnd Írland.
Samkvæmt heimasíðu WOW verða í boði fjórar ferðir í viku og kosta ódýrustu farmiðarnir 7.999 krónur í vor og haust en 12.999 í júlí og ágúst. Við farmiðaverðið bætast svo bókunargjöld og eins þarf að borga undir innritaðan farangur.

Írsku flugfélögin horfa ennþá ekki til Íslands

Forsvarsmenn Ryanair, stærsta lággjaldaflugfélags Evrópu, sýndu Íslandsflugi áhuga fyrir nokkrum árum síðan og könnuðu meira að segja aðstæður á Akureyri líkt og Túristi greindi frá. Félagið hefur hins vegar einbeitt sér að vexti á meginlandi Evrópu í stað þess að hefja flug til Íslands. Það sama er upp á teningnum hjá Aer Lingus sem er stórtækt í flugi yfir hafið og á í samkeppni við íslensku félögin í flugi til fjölmargra borga í N-Ameríku. Farþegar Aer Lingus í Cork þurfa hins vegar í dag að millilenda í Dublin ef þeir ætla að fljúga til Bandaríkjanna eða Kanada en með tilkomu WOW geta íbúarnir hins vegar líka flugið vestur um haf með viðkomu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Nýverið varð Aer Lingus hluti af IAG en innan vébanda þess eru flugfélögin British Airways, Iberia og Vueling sem öll bjóða upp á flug til Íslands.