Er mark takandi á „Black Friday“ tilboðum?

hotelrum nik lanus

Hótelstjórar líkt og kaupmenn auglýsa í dag háa afslætti af gistingu en það er ekki víst að kaupandinn fái samt bestu kjörin. Hótelstjórar líkt og kaupmenn auglýsa í dag háa afslætti af gistingu en það er ekki víst að kaupandinn fái samt bestu kjörin.
Ferðageirinn spilar líka út „Black Friday“ spilinu í dag og á netinu má finna alls kyns tilboð á gistingu og flugmiðum. Á hótelbókunarvef Expedia er til að mynda auglýstur 20 prósent afsláttur, í tilefni dagsins, á Hótel Sögu. Þrjár nætur yfir þriðju helgina í janúar eru þá fáanlegar á rúmar 67 þúsund krónur og tekið er fram að hefðbundið verð sé um 84 þúsund krónur. Hins vegar kostar alveg eins herbergi líka 67 þúsund krónur hjá Booking.com og Hotels.com jafnvel þó þar séu þessi kjör ekki merkt sem sérstakt tilboðsverð. Á heimasíðu hótelsins sjálfs er líka hægt að ganga að þessu sama verði. Sá sem telur sig vera að bóka einstakt „Black Friday“ tilboð hjá Expedia er því aðeins að borga hefðbundið verð.

Líka verðmunur í Kaupmannahöfn og Berlín

Ef ferðinni er heitið til Kaupmannahafnar þessa sömu helgi þá segist Booking.com geta boðið 39% afslátt af gistingunni á The Square við Ráðhústorgið. Þrjár nætur kosta þá um 45 þúsund krónur. Herbergið er þó fimm þúsund krónum ódýrara hjá Hotels.com, Expedia og á heimasíðu hótelsins sjálfs. Þar er að auki boðið upp á morgunmat með gistingunni. Annað dæmi er Lux 11 hótelið í Berlín. Á heimasíðu hótelsins eru þessar þrjár nætur á 34 þúsund en sá sem bókar á útsölum Booking.com, Hotels.com eða Expedia borgar aukalega 3 þúsund krónur eða nærri tíund. Bókunarvefurinn Tablet býður hins vegar bestu kjörin eða rúmar 32 þúsund. 
Eins og sjá má á þessum þremur dæmum þá er vissara að taka yfirlýsingar um tilboðs með fyrirvara og um leið gefa sér tíma til að bera saman kjörin. Og sá grunur læðist að manni að það sé ekki aðeins í ferðaþjónustunni þar sem loforð um háa afslætti séu ekki alltaf uppfyllt.