Útlit fyrir gífurlega fjölgun ferðamanna í janúar

Mynd: Sigurjón Ragnar/sr-photos.com

Það er stefnir í að ferðamönnum muni fjölgi um alla vega helming í janúar.
Ef flugvélarnar sem fljúga til og frá Keflavíkurflugvelli í byrjun árs verða álíka þéttsetnar og undanfarin misseri þá stefnir í að ferðamönnum muni fjölgi um alla vega helming í janúar.  Aukningin gæti orðið töluvert meiri.
Í janúar síðastliðnum var að jafnaði boðið upp á 33 áætlunarferðir á dag frá Keflavíkurflugvelli en brottfarirnar verða helmingi fleiri næstkomandi janúar eða 49 á dag samkvæmt talningum Túrista. WOW air stendur undir ríflega helmingi þessarar viðbótar en umsvif nær allra flugfélaganna á Keflavíkurflugvelli aukast í janúar miðað við núverandi áætlanir. Til að mynda fjórfaldast Íslandsflug Wizz Air milli ára, ferðir Airberlin verða tvöfalt fleiri og eins mun Delta fljúga hingað í janúar en félagið hefur ekki áður verið með Ísland á dagskrá sinni á þeim tíma árs. Sem fyrr er Icelandair langumsvifamesta flugfélagið á Keflavíkurflugvelli og mun félagið bjóða upp á 13 prósent fleiri ferðir í janúar á næsta ári.

115 til 130 þúsund ferðamenn í janúar

Mánaðarlega birtir Túristi talningar sínar á flugumferð um Keflavíkurflugvöll og oftar en ekki fjölgar ferðamönnum hér á landi nokkru meira en sem nemur aukningu í flugi. Í síðasta mánuði var t.d. boðið upp á 42 prósent fleiri áætlunarferðir en í október í fyrra en ferðamönnum fjölgaði um 59,7% á tímabilinu samkvæmt talningu Ferðamálastofu. Suma mánuði er munurinn mun minni eða sambærilegur. Það gerðist til að mynda í janúar sl. þegar flugferðirnar voru fjórðungi fleiri og ferðamannafjöldinn jókst álíka mikið eða um 23,6 prósent. Leiguflug á vegum ferðaskrifstofa, mismunandi sætanýting og sveiflur á hlutfalli skiptifarþega skýra þennan mismun að miklu leyti. Einnig ber að hafa í huga að síðustu mánuði hafa bæði Icelandair og WOW air tekið í notkun breiðþotur sem rúma mun fleiri farþega en áður þekktist í Íslandsflugi. Því má gera ráð fyrir að fjölgun ferðamanna verði nokkru meiri en sem nemur viðbótar flugferðum. Í janúar á næsta ári má þar af leiðandi áætla að erlendum ferðamönnum fjölgi úr nærri 78 þúsund í 115 til 130 þúsund. Túristarnir verða þá álíka margir og þeir voru í maí síðastliðnum.

Næg gisting í boði

Janúar hefur hingað til verið sá mánuður þar sem ferðamenn eru fæstir hér á landi og í janúar sl. var nýting á íslenskum hótelum 49 prósent samkvæmt tölum Hagstofunnar. Um átta af hverjum tíu hótelgestum í þeim mánuði gistu hins vegar á höfuðborgarsvæðinu og þar var nýtingin 68 prósent. Miðað við ofannefnd tengsl flugsamgangna og ferðamannastraums þá stefnir í að reykvískir hótelstjórar muni taka á móti mun fleiri gestum fyrstu vikur næsta árs en þeir gerðu á sama tíma í fyrra. En hafa ber í huga að framboð á gistirými hefur aukist töluvert síðastliðið ár og ekki er útlit fyrir annað en að þeir sem ætla í dag að bóka gistingu í Reykjavík í janúar hafi úr töluverðu að moða. Til að mynda segir á vef Booking.com, eins umsvifamesta hótelbókunarfyrirtækis heims, að aðeins 29 prósent gistirýma í höfuðborginni sé uppbókað helgina 19. til 22. janúar og þar fundust laus tveggja manna herbergi á 198 gististöðum. Á vef Airbnb eru 170 gistirými laus þessa sömu helgi.
Eins og þessar tölur bera með sér er Airbnb mjög stór aðili á gistimarkaðnum á höfuðborgarsvæðinu og eins og staðan er núna þá mætti koma fyrir erlendum ferðamönnum í gistingu Airbnb úr 5 til 8 flugvélum af þeim 49 sem lenda munu á Keflavíkurflugvelli þann 19. janúar nk.