Leggja niður beina flugið milli London og Egilsstaða

egilsstadaflugvollur

Eftirspurn eftir beinu flugi á Austurland reyndist mun minni en búist hafði verið við. Eftirspurn eftir beinu flugi á Austurland reyndist mun minni en búist hafði verið við.
Í sumar var boðið upp á beint flug milli London-Gatwick flugvallar og Egilsstaða. Upphaflega stóð til að fljúga samtals 35 ferðir frá vori og fram á haust en flugferðunum var hins vegar fækkað niður í 9 og voru þær allar farnar yfir hásumarið. Það voru forsvarsmenn Discover the World sem áttu frumkvæðið að þessu flugi en ferðaskrifstofan hefur í áratugi verið í fararbroddi í skipulagningu Íslandsferða frá Bretlandi. Clive Stacey, forstjóri og stofnandi Discover the World, segir að þó þeir sem hafi nýtt sér flugferðirnar í sumar hafi verið ánægðir með þjónstuna þá sé staðreyndin sú að viðtökurnar, bæði í Bretlandi og á Íslandi, hafi verið langtum minni en búist hefði verið við. Sætanýtingin hafi því ekki verið nægjanleg til að standa undir kostnaði við flugið. Stacey bendir jafnframt á að aukin tíðni ferða frá Bretlandi til Keflavíkurflugvallar á næsta ári og mjög samkeppnishæf fargjöld á breskum flugleiðum geri það að verkum að það yrði mjög erfitt að starfrækja viðbótarflug til Íslands. „Gengi krónunnar í samanburði við lækkandi pund gerir þetta líka mun erfiðara en ella.“

Áframhaldandi mikil eftirspurn eftir Íslandsferðum

Í fyrra komu hingað um 10 þúsund Bretar á vegum Discover the World og segir Stacey að þrátt fyrir allt þá gangi sala á Íslandsferðum vel og hann búist við að svo verði áfram. „Markmið okkar er að halda áfram að vinna með félögum okkar hjá Icelandair og WOW að því að selja ferðir um Austurland og aðrar dreifðar byggðir í tengslum við flug til Keflavíkurflugvallar,“ segir Stacey en segist um leið vera sannfærður um í framtíðinni verði beint flug frá Bretlandi og út á landsbyggðina fastur hluti af íslenskri ferðaþjónustu. „Kannski vorum við bara aðeins of snemma á ferðinni.“ Stacey bætir því við að ferðaþjónustan á Austurlandi eigi þakkir skildar fyrir stuðning við verkefnið í sumar þar á meðal samstarfsaðilarnir hjá Tanni Travel og Fjallasýn og starfsmenn Austurbrúar.