Jólabjórinn þriðjungi ódýrari í Fríhöfninni

Sala á jólabjór er hafin bæði í Fríhöfninni og í Vínbúðunum og sem fyrr munar töluverðu á verðskrám þessara tveggja fyrirtækja. Framkvæmdastjóri Fríhafnarinnar segir hluta farþega nú kaupa áfengið á erlendum flugvöllum í stað þess að versla við komuna til landsins.

frihofnin

Þeir sem koma fljúgandi til landsins á næstunni og kaupa sér kippu af jólabjór í Fríhöfninni borga allt að 38 prósent minna en sá sem fer í Vínbúð og nær sér í öl af sömu tegund. Í krónum talið er munurinn mestur ef keypt er kippa af Giljagaur en hún kostar 2.999 krónur í Fríhöfninni en 4.662 kr. í Vínbúðunum. Verðmunurinn er 1.663 krónur en Giljagaur er dýrastur af þeim 11 tegundum af jólabjór sem seldar er í Fríhöfninni fyrir þessi jól samkvæmt heimasíðu verslunarinnar. Föroya jólabruggið er hins vegar ódýrast og hlutfallslega er minnstur sparnaðurinn í kaupum á því í Fríhöfninni eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan.
Heilt yfir má segja að sá sem kaupir bjór í Fríhöfninni borgi aðeins fyrir 4 bjóra en fái sex í samanburði við verðlagið í Vínbúðunum.

Vísbendingar um að áfengisverslunin hafi flust úr landi

Í sumarbyrjun var reglum um áfengiskaup ferðamanna breytt á þann veg að nú geta þeir nýtt allan tollinn til kaupa á aðeins sterku áfengi, léttvíni eða bjór. Áður þurfti að blanda saman sortum í samræmi við fimm ólíkar samsetningar. Þá gátu flugfarþegar í mesta lagi keypt fjórar kippur af bjór en hámarkið er núna sex hálfs lítra kippur. Þrátt fyrir þessa aukningu hefur bjórsala dregist saman í Fríhöfninni frá því að reglunum var breytt líkt og Túristi greindi frá. Við breytingarnar í sumar var Fríhöfninni ekki lengur heimilt að bjóða farþegum að panta vörur í komuversluninni og sækja þær tilbúnar við komuna til landsins. Þorgerður Þráinsdóttir, framkvæmdastjóri Fríhafnarinnar, segir vísbendingar um að með þessu hafi verslun flust úr landi því þessi pöntunarþjónusta hafi mest verið nýtt til kaupa á tollkvótanum því viðskiptavinurinn sparaði sér tíma og fyrirhöfn. „Að minnsta kosti hluti þessara viðskipavina kaupir nú tollkvótann á þeim flugvelli sem flogið er frá því þar þarf hann hvort sem er að bíða. Keflavíkurflugvöllur tapar því tekjum til annarra flugvalla.“