1500 Íslendingar á dag til útlanda í nóvember

kef farthegar

Aldrei áður hafa jafn margir hér á landi nýtt nóvember til ferðalaga til annarra landa og fjöldi íslenskra farþega í ár kominn upp í hálfa milljón Aldrei áður hafa jafn margir hér á landi nýtt nóvember til ferðalaga til annarra landa og fjöldi íslenskra farþega í ár kominn upp í hálfa milljón.
Rúmlega 45 þúsund Íslendingar flugu frá Keflavíkurflugvelli í síðasta mánuði sem er stórbæting á gamla metinu sem sett var nóvember árið 2007 þegar nærri 41 þúsund íslenskir farþegar flugu héðan. Að meðaltali sátu því um fimmtán hundruð Íslendingar á degi hverjum í vélunum sem tóku á loft frá Keflavíkurflugvelli í nóvember en svo margir farþegar fylla um átta hefðbundnar þotur. Til samanburðar voru brottfarir frá flugvellinum að meðaltali 51 á dag í nóvember samkvæmt talningum Túrista.
Miðað við eðlilega sætanýtingu má segja að fimmta hver þota sem tók á loft hafi verið með íslenska farþega en fjórar af hverjum fimm með útlendinga.

Búin að rjúfa 500 þúsund farþega markið

Ferðamálastofa hefur haldið úti talningum á brottförum Íslendinga frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar frá árinu 2004 og á þeim tíma hafa aldrei fleiri farið út en árið 2007 þegar fjöldinn náði nærri 470 þúsundum. Það met fellur hins vegar í ár því í lok nóvember sl. höfðu 495 þúsund íslenskir farþegar farið út og næsta víst er að í fyrstu viku þessa mánaðar hafi meira en 5 þúsund Íslendingar innritað sig í flug í Leifsstöð. Þar með hefur meira en hálf milljón íslenskra farþega farið til útlanda í ár. Langflestir í júní eða rúmlega 67 þúsund talsins.