Beint flug til Tel Aviv í Ísrael á næsta ári?

Loftferðasamningur við Ísrael er í vinnslu hjá íslenskum stjórnvöldum og beint flug til Tel Aviv mun vera á teikniborðinu.
Hingað til hefur beint flug milli Íslands og útlanda takmarkast við áfangastaði í Norður-Ameríku og Evrópu þrátt fyrir að í gildi séu heimildir til viðskiptaflugs héðan til um 100 landa. Á næsta ári gæti Ísrael bæst við þann lista því samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu þá hafa íslensk stjórnvöld að undanförnu unnið að gerð loftferðasamnings við yfirvöld í Ísrael. Viðræður munu að öllum líkindum halda áfram næstu mánuði segir jafnframt í svari ráðuneytisins til Túrista.

Dýr flugleið

Samkvæmt heimildum Túrista hefur verið sótt um afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli fyrir flug héðan til Tel Aviv á næsta ári en Guðjón Arngrímsson, talsmaður Icelandair, segir félagið ekki hafa uppi nein áform um flug til Ísrael. „Við tjáum okkur ekki um neina nýja áfangastaði að svo stöddu,” segir í svari Svanhvítar Friðriksdóttur hjá WOW air en ekki hefur tekist að leita svara hjá El Al, þjóðarflugfélagi Ísrael, um hvort fyrirtækið hyggi á flug til Íslands.
SAS, stærsta flugfélag Norðurlanda, hætti flugi til Tel Aviv fyrr á þessu ári og í tilkynningu frá félaginu kom fram að ein helsta ástæða þeirrar ákvörðunar var sú staðreynd að dýrt er að halda upp i flugi til Ísrael, meðal annars vegna mikilla öryggiskrafna að hendi þarlendra yfirvalda. En eftirlit með flugi til og frá landinu eru mun strangara en gerist og gengur annars staðar.

Fleiri Ísraelskir ferðamenn í ár

Fyrstu tíu mánuði ársins hafa Ísraelar keypt nærri 21 þúsund gistinætur á íslenskum hótelum sem er aukning um 14 prósent frá sama tíma í fyrra samkvæmt tölum Hagstofunnar. Langstærsti hluti þessara gistinga er yfir sumarmánuðina en þess má geta að í viðtali Túrista við framkvæmdastjóra Lufthansa kom fram að eftirspurn eftir Íslandsflugi félagsins, frá þýsku borgunum Munchen og Frankfurt, hafi verið meiri frá ísraelskum farþegum en búist hafði verið við.
Ferðamönnum hefur hins vegar fækkað í Ísrael síðustu misseri vegna ótryggs ástands þar og í nágrannalöndunum fyrir botni Miðjarðarhafs. Þannig fækkaði erlendum hótelgestum í Ísrael um fjórðung í fyrra, mest í Jerúsalem og Nasaret en minna í Tel Aviv. Flugvöllur borgarinnar, Ben Gurion, er lang fjölfarnasta flughöfnin í Ísrael og þess er kannski ekki langt að bíða að íslenskar þotur lendi þar en flugið frá Keflavíkurflugvelli mun taka um 7 klukkutíma.