60 milljónir ferðamanna til New York

newyork loft Troy Jarrell

Aldrei hafa eins margir sótt heim fjölmennustu borg Bandaríkjanna. Íslenskir gestir þar í bæ eru hins vegar ekki taldir sérstaklega. Aldrei hafa eins margir sótt heim fjölmennustu borg Bandaríkjanna. Íslenskir gestir þar í bæ eru hins vegar ekki taldir sérstaklega.
Sjöunda árið í röð hefur ferðamannastraumurinn til New York borgar aukist frá fyrra ári og í heildina er búist við að 60,3 milljónir ferðamanna hafi lagt leið sína þangað þegar árið verður gert upp. Þetta kemur fram í tilkynningu frá borgarstjóranum, Bill de Blasio, en þar segir jafnframt að 375 þúsund ný störf hafi orðið til í borginni í ár í tengslum við ferðaþjónustuna sem er aukning um 15 þúsund stöðugildi frá árinu á undan.
Langflestir, í hópi ferðafólks í New York, eru Bandaríkjamenn sjálfir en í heildina hafa um 13 milljónir túrista komið frá útlöndum. Þar af eru Skandinavar stór hópur og hefur þeim fjölgað um nærri tíund síðustu tvö ár. Sérstöku bókhaldi yfir fjölda íslenska ferðamanna í borginni er hins vegar ekki haldið úti samkvæmt upplýsingum frá ferðamálaráði New York. Það er þó óhætt að fullyrða að Íslendingum í New York hafi fjölgað verulega síðustu misseri enda hefur framboð á flugi héðan til borgarinnar aukist verulega og ferðagleði landans er í hámarki um þessar mundir.

Stefna að betri dreifingu ferðamanna um borgina

Á fundi með norrænum ferðablaðamönnum í Stokkhólmi haust sögðu forsvarsmenn ferðamála í New York að það væri mikil áskorun að fá túrista til að fara víðar um borgarlandið. Í dag heldur nefnilega meginþorri gestanna til á Manhattan og einhverjir fara yfir til Brooklyn. Miklu færri heimsækja hin þrjú hverfin, Bronx, Queens og Staten Island. Með aukinni afþreyingu og uppbyggingu hótela í þessum þremur síðarnefndum borgarhlutum er vonast til að á þessu verði breyting. Yfirvöld í borginni sem aldrei sefur eiga þó við annan klassískan vanda í ferðaþjónustu að etja og það eru vetrarferðirnar. Í janúar og fram í febrúar koma alltof fáir ferðamenn og af þeim sökum er boðið upp á sérkjör á veitingastöðum, hótelum og leikhúsum borgarinnar fyrstu vikur ársins undir kjörorðinu Nonstop NYC í von um að fá fleiri til að leggja leið sína til New York á þeim tíma árs.