Samfélagsmiðlar

Ferðaminningar Margrétar Tryggvadóttur

margret tryggvadottir

Henni þótti stórkostlegt að vakna um borð í seglskútu á Níl og borðar alltaf þar og það sem Sólveig vinkona hennar mæli með. Henni þótti stórkostlegt að vakna um borð í seglskútu á Níl, lumar á góðum ráðum fyrir þá sem ætla í skíðaferð til Vancouver og borðar alltaf þar og það sem Sólveig vinkona hennar mæli með. Margrét Tryggvadóttir segir hér frá ferðalögum sínum en nýverið kom út bók hennar og Lindu Ólafsdóttur sem ber heitið Íslandsbók barnanna.

Fyrsta ferðalagið til útlanda
Ég fór í fyrsta sinn til útlanda með foreldrum mínum og ömmum þegar ég var nýorðin þriggja ára, sumarið 1975. Önnur amma mín og alnafna, Margrét Tryggvadóttir fædd 1917, hafði orðið ekkja nokkrum mánuðum áður og foreldrum mínum fannst tilvalið að bjóða henni og hinni ömmu minni Elínu Jónsdóttur til Kaupmannahafnar. Þetta var líka fyrsta utanlandsferð Margrétar ömmu minnar. Ég er ekki viss um að ég muni í raun neitt eftir þessari ferð en pabbi var duglegur að taka myndir sem ég skoðaði reglulega og því finnst mér ég muna ýmislegt.

Best heppnaða utanlandsferðin
Í febrúar 2008 fórum við fjölskyldan saman til Kína og dvöldum þar í tæpa fjóra mánuði. Okkur langaði að breyta til og fannst þetta síðasti séns fyrir okkur að taka strákana okkar úr skóla í einhvern tíma en þeir voru þá í 5. og 9. bekk. Reyndar gengu þeir í alþjóðlegan skóla á meðan á dvölinni stóð og fengu mikið út úr því. Við dvöldum í Shanghai sem er mjög vestræn borg en ákváðum að búa ekki þar sem flestir útlendingarnir búa eða sækja í samfélög þeirra heldur reynda að kynnast lífinu eins og það er fyrir venjulegt fólk. Svo náðum við að ferðast töluvert um landið þótt það sé raunar óþrjótandi verkefni. Maðurinn minn var í námi í borginni en ég tók mína vinnu bara með mér og þýddi meðal annars tvær bækur en fór líka í matreiðsluskóla og lærði að elda kínverskan og tælenskan mat. Dvölin breytti okkur, bæði viðhorfi okkar til lífsins og heimsins en ekki síður sambandi okkar fjögurra. Fjölskyldan varð miklu nánari eftir að hafa átt þennan tíma saman án allrar utanaðkomandi truflunar.

Tek alltaf með mér í ferðalagið
Bækur! Oft reyni ég að lesa bækur sem gerast á þeim stöðum sem ég er að heimsækja, sérstaklega ef ég er að fara í frí, og les slíkar bækur líka fyrir og eftir ferðina ef ég get.

Eftirminnilegasta máltíðin í útlöndum
Árið 2000 fórum við til Bordeaux en árið áður hafði maðurinn minn orðið þrítugur og vinir okkar gáfu honum hlutabréf í vínekru þar í afmælisgjöf. Hlutabréfaeigninni fylgdu orlofsréttindi sem hinn nýbakaði vínbóndi og vinir hans gátu nýtt sér en við leigðum allt „chateau-ið“ og fórum saman fimm pör. Sólveig vinkona okkar sem stóð fyrir þessari frumlegu gjöf er menntaður matreiðslumaður og var búin að gera úttekt á öllum bestu veitingahúsum svæðisins. Hún pantaði borð á stað sem heitir La Tupina sem er þekktur fyrir hefðbundna franska matargerð. Sú máltíð hófst með því að okkur var boðið upp á smakk af hvítlaukslegnum svínaþörmum sem voru bæði frekar ógeðslegir en líka ótrúlega bragðgóðir og settu tóninn fyrir kvöldið þar sem við smökkuðum ýmislegt sem Íslendingar hafa fúlsað við í gegnum tíðina. Þessi máltíð er ógleymanleg og það var allt en ekki eitt – umhverfið og maturinn sem var stórkostlegur en ekki síst góður félagsskapurinn. Máltíðinni lauk svo með 130 ára gömlu koníaki. Við áttum reyndar ekki fyrir 10 glösum þannig að við pöntuðum eitt og létum það ganga hringinn. Reyndar var þessi vika í Bordeaux ein samfelld matarupplifun og á heimleiðinni komum stoppuðum við í London þar sem Sólveig hafði pantað borð á River Café í hádegisverð. Þaðan ultum við út um þrjúleytið, södd og sæl eftir aðra ótrúlega veislu. Síðan þá hef ég alltaf borðað þar og það sem Sólveig segir mér að borða.

Það kjánalegasta sem ég hef gert sem ferðamaður
Mér tekst ótrúlega oft að klúðra skófatnaði á ferðalögum og taka með mér og reyna að nota skó sem ég get ekki notað í hita og raka og enda öll plástruð á löppunum.

Minnistæðasta hótelið sem ég hef búið á
Minnistæðasti gististaðurinn var reyndar ekki hótel heldur seglskúta sem við sigldum á í sólarhring á Níl í Egyptalandi. Eftir að hafa siglt niður fljótið allan daginn áðum við við árbakkann, fjórar fjölskyldur saman, við frá Íslandi, tvær frá Bretlandi og ein frá Kanada. Svo voru þarna innlendur fararstjóri og tveir menn sem stýrðu skútunni. Krakkarnir fóru í fótbolta með börnum sem bjuggu við ána og léku sér með þeim þar til dimmdi. Ekkert hús var á bátnum þannig að þegar myrkrið skall á skriðum við ofan í svefnpokana okkar og fórum að sofa undir stjörnubjörtum himninum. Ég rumskaði svo fyrir dagrenningu en þá voru skipstjórinn og stýrimaðurinn farnir að róa skútunni í morgunkyrrðinni til að koma okkur á næsta áfangastað. Þegar dagaði fengum við vind í seglin og þeir gátu hætt að róa. Það var stórkostlegt að vakna þarna á ánni, hægt og rólega, undir berum himni, á stórfljóti og með fjölskyldu og nýja vini í kringum sig.

Uppáhalds áfangastaðurinn minn er
Whistler í Bresku Kólumbíu í Kanada. Þangað höfum við farið fjórum sinnum, fyrst þegar bróðir minn og hans fjölskylda bjuggu í Vancouver þar sem hann var við nám í tvö ár. Þau eru löngu flutt heim en við höldum áfram að fara. Í Whistler er eitthvert besta og stærsta skíðasvæði heims, frábærar skíðaleiðir en líka dásamleg náttúrufegurð, skemmtilegur bær og gott að vera. Það eru allir svo glaðir og vingjarnlegir í Kanada. Leiðin frá Vancouver upp í fjöllinn er eftir þjóðvegi sem kallast Sea-to-Sky Highway og hann verður maður að keyra í björtu enda ótrúlega fögur leið og skemmtilegt að keyra. Við höfum farið þessar ferðir í páskafríinu okkar og skíðað í dimbilvikunni en varið páskunum sjálfum, þegar skíðasvæðið fyllist af fólki, í Vancouver eða Seattle.

Áttu gott ráð fyrir þá sem langar í skíðarferð til Whistler?
Þetta segir sig nú eiginlega allt sjálft en ég held að besta ráðið sé að leggja ekki strax af stað akandi frá Seattle upp í fjöllin þegar maður kemur ef flogið er þangað heldur tékka sig inn á flugvallarhótel og leggja af stað úthvíldur. Kosturinn við flugvallarhótel eru nokkrir. Yfirleitt eru þau á góðu verði og bjóða ókeypis skutlur til og frá flugvellinum. Maður getur því líka sleppt því að leigja bíl fyrsta daginn. Og svo það besta, morgunverðurinn byrjar kl. 4 þannig að þegar maður vaknar eldsnemma vegna átta tíma munar þá þarf maður ekki að bíða hungurmorða inn á hótelherbergi þar til kaffihús opna. Við höfum alltaf leigt íbúð í einkaeigu og það hefur gefist vel. Í þeirri blokk er bæði heitur pottur en líka upphituð útisundlaug og það jafnast ekkert á við að taka sundsprett eftir góðan dag á skíðum þannig að ég mæli með því.

Þangað er ferðinni heitið næst
Við ætlum í aðventuferð til Strasbourg og Frankfurt með sonum og tengdabörnum nú í desember. Foreldrar tengdadóttur minnar búa í Sviss en þau bjuggu áður í Strasbourg og þar á hún marga vini. Þau sonur minn fara áfram til Sviss en við hin heim eftir fjögurra daga dvöl.

Minnistæðasta ferðalagið um Ísland
Ég er alin upp í Hjálparsveit skáta þannig að sem krakki vorum við í sífelldum útilegum og ferðum um allt land og ég á ótal minningar um skemmtilegar ferðir um landið okkar. Þegar ég var þingmaður var suðurkjördæmi mitt og reglulega fór þingmannahópurinn um allt kjördæmið og fundaði með sveitarstjórnum. Þessar ferðir voru eitt það skemmtilegasta við þingmannsstarfið. Við sameinuðumst yfirleitt í bíla, þvert á flokka og allt öðruvísi samtöl og tengsl mynduðust manna á milli. Þetta voru afar dýrmætar stundir, auk þess sem við ræddum við fólkið á Suðurlandi og Suðurnesjum og fengum innsýn í líf þeirra og störf.

Nýtt efni

Á árinu 2023 minnkaði sala í Danmörku á prentuðum bókum um 70,2 milljónir danskra króna (tæpa 1,5 milljarða íslenskra kr.) en á sama tíma jókst velta með stafrænar bækur, hljóð og e-bækur, um 35,3 milljónir danskra kr. (rúmar 700 milljónir kr). Einmitt þessi breyting kemur illa niður á rithöfundum landsins því tekjur þeirra og forlaganna …

Af þeim sex norrænu flugfélögum sem skráð eru á hlutabréfamarkað þá gengur best hjá hinu norska Norwegian. Félagið stokkaði upp leiðakerfið í heimsfaraldrinum, endursamdi við birgja og starfsfólk og í fyrra skilaði Norwegian methagnaði. Sú niðurstaða skrifaðist meðal annars á þá ákvörðun stjórnenda að draga töluvert úr umsvifunum yfir vetrarmánuðina. Það hefur leitt til að …

Í ágúst 2026 er áætlað að Victorian Fruit and Vegetable Market í höfuðborg Írlands opni dyr sínar á nýjan leik. Markaðurinn hefur verið lokaður í fimm ár og byggingin legið undir skemmdum en með hjálp 25 milljón evra þróunarstyrks er markmiðið að nýr markaður skáki ekki aðeins hinum víðfræga Enska markaði í Cork heldur mörkuðum …

Play tapaði 3,1 milljarði króna fyrir skatt á fyrsta ársfjórðungi í fyrra en núna var tapið 19 prósent hærra eða 3,7 milljarðar króna. Félagið jók framboðið um 63 prósent á milli þessara tveggja fjórðunga en í flota félagsins voru sex til átta þotur í byrjun síðasta árs en núna eru þær tíu. Einar Örn Ólafsson, …

Sjóðir bandaríska flugvélaframleiðandans Boeing minnkuðu um 3,9 milljarða dollara á fyrsta ársfjórðungi. Upphæðin jafngildir 550 billjónum íslenskra króna og skýringin á þessum mikla fjármagnsbruna liggur í endurteknum göllum í þeim flugvélum sem fyrirtækið framleiðir. Af þeim sökum hefur bandaríska flugöryggisstofnunin takmarkað afköstin í verksmiðjum Boeing við 38 Max þotur í mánuði. Þar með þurfa flugfélög …

Fyrr á þessu ári kynnti fyrirtækið til sögunnar Precious Honeyglow anansinn sem er aðeins um 600 1000 grömm að þyngd eða um það bil helmingi minni en hefðbundinn ananas.Í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu segir að það kappkosti ávallt að uppfylla óskir kaupenda, hvort sem þær eru um sætara bragð, sjálfbærnisjónarmið og nú – stærð. Hið nýja …

Tekjur Icelandair af farþegaflugi námu rúmlega 27 milljörðum króna á fyrsta fjórðungi ársins og hafa þeir aldrei verið hærri á þessum tíma árs. Sætaframboðið hefur heldur aldrei verið meira en það jókst það um 21 prósent á milli ára og var farþegahópurinn 14 prósent fjölmennari núna en fyrstu þrjá mánuðina í fyrra. Þá stóðu farþegar …

Það seldust 183 þúsund Volvo bílar á fyrsta fjórðungi ársins sem var aukning um 12 prósent frá sama tíma í fyrra. Engu að síður dróst veltan saman um 2 prósent og rekstrarafkoman (Ebit) nam 4,7 milljörðum sænskra króna eða 61 milljarði kr. Það er töluvert undir spá greinenda sem höfðu að jafnaði gert ráð rekstrarhagnaði …