Ferðaþjónustan á fullu yfir hátíðarnar

Mynd: Sigurjón Ragnar/sr-photos.com

Ferðamenn á höfuðborgarsvæðinu hafa úr töluverðu að moða yfir jólin. Ferðamenn á höfuðborgarsvæðinu hafa úr töluverðu að moða yfir jólin.
Á Þorláksmessu lentu sextíu farþegaþotur á Keflavíkurflugvelli og í dag eru gert ráð fyrir fjörtíu og tveimur flugvélum. Í þessum rúmlega eitt hundrað þotum eru sæti fyrir um 17 til 20 þúsund farþega og hlutfall erlenda ferðamanna um borð í vélunum er hátt. Það er alla vega raunin hjá Icelandair en félagið stendur undir um helmingi allra flugferða til og frá landinu í desember. Að sögn Guðjóns Arngrímssonar, talsmanns Icelandair, eru vélarnar sem koma í dag þéttbókaðar og eru útlendingar langstærsti hluti farþeganna á aðfangadag. Og þar sem Icelandair gerir hlé á áætlun sinni á jóladag þá má gera ráð fyrir að ferðamennirnir dvelji hér að minnsta kosti fram til annars í jólum. 

Sjöfalt fleiri flugferðir

Umferðin um Keflavíkurflugvöll yfir jól hefur aukist hratt síðustu ár og til að mynda lentu hér aðeins sex þotur á  aðfangadag árið 2011 og þær voru tíu ári síðar samkvæmt talningum Túrista. Þá var heldur ekki boðið upp á neinar ferðir á jóladag en á morgun koma hingað þrjár þotur á vegum Delta og Airberlin. Þessi stóraukni ferðamannastraumur hingað yfir jól kallar á miklar breytingar hjá ferðaþjónustufyrirtækjum og til að mynda halda tvö stærstu rútufyrirtæki landsins uppi nærri hefðbundinni dagskrá yfir jól. Þannig mun á þriðja þúsund farþega fara í skoðunarferðir á jóladag á vegum Gray Line og farþegafjöldinn er álíka annan dag í jóla. Kristján Daníelsson, forstjóri Kynnisferða, segir alltaf vel bókað í ferðir yfir hátíðarnar en fyrirtækið býður meðal annars upp á sérstaka jólagöngu um Reykjavík í dag.

Margir á hestbak og í Bláa lónið  

Það er uppselt í alla útreiðatúra hjá Íshestum í dag og mun fyrirtækið í fyrsta skipti í ár hafa opið á jóladag. Sú nýbreytni mælist vel fyrir því að sögn Skarphéðins Steinarsson, framkvæmdastjóra, er nær uppselt í útreiðatúra morgundagsins. Í Bláa lóninu hefur opnunartíminn yfir jólin líka verið lengdur og segir Magnea Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi fyrirtækisins, að hátíðarnar séu vinsæll tími til að heimsækja Bláa Lónið „Það er nánast fullbókað hjá okkur og hafa langflestir gesta okkar pantað heimsókn sína með góðum fyrirvara. Til að mæta eftirspurn yfir hátíðarnar þá höfum við lengt opnunartíma miðað við það sem verið hefur undanfarin ár á t.d. Þorláksmessu, aðfangadag, jóladag og á gamlársdag.“