Stefnir í að Icelandair verði eitt um flugið til Belfast í sumar

Belfast City Hall

Í júní bætist höfuðborg Norður-Írlands við leiðakerfi Icelandair og um svipað leyti gerir easyJet hlé á Íslandsflugi sínu frá borginni. Í júní bætist höfuðborg Norður-Írlands við leiðakerfi Icelandair og um svipað leyti gerir easyJet hlé á Íslandsflugi sínu frá borginni.
Fyrir tveimur árum síðan hóf easyJet, stærsta lággjaldaflugfélag Bretlands, að fljúga hingað reglulega frá Belfast, höfuðborg Norður-Írlands. Félagið hefur starfrækt flugleiðina sleitulaust síðan þá mun hins vegar gera hlé á áætluninni næsta vor en taka upp þráðinn að nýju um haustið. Andy Cockburn, talsmaður easyJet, tekur það þó fram, í svari til Túrista, að endanlega sumaráætlun flugfélagsins sé ekki tilbúin og ekki sé útilokað að núverandi áform taki breytingum. Hvað sem því líður er ljóst að flugsamgöngur milli Íslands og N-Írlands munu ekki leggjast af því Icelandair hefur flug til Belfast í júní næstkomandi. Flogið verður þrisvar sinnum í viku, allan ársins hring og mun Flugfélag Íslands annast flugið á Bombardier Q400 flugvélum sínum sem rúma 72 farþega.

George Best skammt frá miðborginni

Þeir farþegar sem flogið hafa héðan með easyJet til Belfast hafa lent á flugvellinum Belfast International sem er nokkuð fyrir utan borgina sjálfa. Vélar Flugfélags Íslands munu hins vegar lenda á flugvelli í miðborg Belfast sem nefndur er í höfuðið á knattspyrnukappanum George Best. Þaðan tekur um fimmtán mínútur að komast til miðborgar Belfast.