Kallar eftir ferðamálaráðuneyti

Varaformaður Samtaka ferðaþjónustunnar segir tímabært að greinin fái meira vægi í stjórnsýslunni. Varaformaður Samtaka ferðaþjónustunnar segir tímabært að greinin fái meira vægi í stjórnsýslunni.
Það er útlit fyrir metaukningu í komu ferðafólks hingað til lands í ár og aldrei hafa fleiri Íslendingar flogið út í heim. Á sama tíma fölgar túristum á heimsvísu jafnt og þétt. Mikilvægi ferðaþjónustunnar sem atvinnugreinar eykst því ekki bara hér á landi heldur út um allan heim. Þrátt fyrir það eru sérstök ferðamálaráðuneyti vandfundin í löndunum í kringum okkur. Í Frakklandi, vinsælasta ferðamannalandi heims, fer utanríkisráðherra landsins með málefni tengd túrisma, á Spáni eru þau á borði ráðherra orku- og ferðamála en viðskiptaráðherrar Svíþjóðar og Danmerkur bera ábyrgð á málaflokknum í sínum löndum. Í Noregi er það samgönguráðherrann sem fer fyrir ferðaþjónustuni en sá háttur var einnig hafður á hér á landi um áratugaskeið eða fram til ársins 2007 þegar málaflokkurinn fór til iðnaðarráðherra. Þórir Garðarsson, stjórnarformaður Gray Line og varaformaður Samtaka ferðaþjónustunnar, telur hins vegar fulla þörf á íslensku ferðamálaráðuneyti í næstu ríkisstjórn. „Það er löngu kominn tími á að ferðaþjónustan fái meira vægi í stjórnsýslunni. Núna er eitt og hálft stöðugildi í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu helgað ferðaþjónustunni, sem er orðin stærsta atvinnugrein landsins með 24 þúsund starfsmenn og skilar jafn miklum gjaldeyristekjum og sjávarútvegurinn og stóriðjan samanlagt. Það segir sig sjálft að stjórnsýslan getur ekki sinnt málefnum ferðaþjónustunnar svo vel sé með þessu móti.”

„Við þurfum að fá ferðamálaráðherra”

Á síðasta kjörtímabili ríflega tvöfaldaðist fjöldi ferðamanna hér á landi og þá fór Ragnheiður Elín Árnadóttir, viðskipta- og iðnaðarráðherra, með ferðamálin. Hún fékk hins vegar ekki brautargengi í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningar og því ljóst að nýr aðili tekur við málaflokknum. Þórir vill hins vegar sjá ferðamálin annars staðar en hjá væntanlegum iðnaðar- og viðskiptaráðherra og nefnir sem dæmi að þau geti farið vel saman með samgöngumálunum eða landbúnaðarráðuneytinu. Aðalatriðið er, að hans mati, að atvinnugreinin fái mun meira vægi en nú er. „Með sérstöku ráðuneyti ferðamála tryggjum við að þau brýnu stjórnsýsluverkefni sem snúa að greininni séu ekki munaðarlaus heldur fái viðunandi afgreiðslu og eftirfylgni. Áður en ferðaþjónustan fór að vaxa jafn gríðarlega og raun ber vitni, þá komst atvinnugreinin af með lítinn stuðning stjórnsýslunnar. En núna blasa við tröllaukin verkefni á vegum hins opinbera til að ferðaþjónustan geti haldið áfram að vaxa og dafna þannig að bæði landsmenn og ferðamenn verði sáttir. Þess vegna verðum við að fá sérstakt ráðuneyti ferðamála til að fylgja þessum verkefnum eftir. Það þarf að ráðast í stórfellda uppbyggingu innviða, úrbætur á vinsælum ferðamannastöðum og þar fram eftir götunum. Þessu verður ekki sinnt af borðshorni í einhverju ráðuneyti, við þurfum að fá ferðamálaráðherra.”

Nægt fjármagn til

Stjórnstöð ferðamála var sett tímabundið á laggirnar fyrir rúmu ári síðan en að henni standa fjögur ráðuneyti ásamt Samtökum ferðaþjónustunnar. Þórir segir tilganginn þann að skilgreina þau verkefni sem þarf að ráðast í til að bregðast við vexti ferðaþjónustunnar en Stjórnstöðinni er hins vegar ekki ætlað að sjá um framkvæmdir. „Verkefnalistinn og kostnaðaráætlanir liggja fyrir og væntanlegur ráðherra ferðamála getur glaðst yfir því að nægir peningar eru til svo hægt sé að ráðast í þessi brýnu verkefni. Það er gert ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs af ferðamönnum fari vel yfir 100 milljarða á næsta ári og aðeins þarf 7 prósent af þeirri upphæð til að koma málum í gott horf. Afgangurinn af ferðamannatekjunum getur síðan farið í heilbrigðiskerfið, menntamálin, vegabætur og önnur brýn verkefni sem blasa við ríkisvaldinu.”