Loks beint flug og Spánverjar fjölmenna til landsins

Mynd: Sigurjón Ragnar/sr-photos.com

Í síðasta mánuði flugu þrefalt fleiri spænskir ferðamenn frá Keflavíkurflugvelli en á sama tíma í fyrra. Ástæðan er stóraukið vetrarflug hingað frá tveimur fjölmennustu borgum Spánar.
Á meðan flogið er jafnt og þétt til Kanarí og Tenerife allt árið um kring þá liggja samgöngur milli Íslands og meginlands Spánar vanalega niðri frá hausti og fram á vor ef frá eru taldar stökur ferðir til Alicante. Í nóvember í fyrra var að til að mynda ekki flogið héðan til Barcelona né Madrídar en því hefur orðið mikil breyting því nú bjóða þrjú flugfélög upp á áætlunarflug milli Íslands og Barcelona og þotur Norwegian fljúga hingað tvisvar í viku frá Madríd. Samtals voru farnar 28 ferðir frá þessum tveimur fjölmennustu borgum Spánar til Íslands í síðasta mánuði og það hafði veruleg áhrif á ferðir Spánverja því samkvæmt talningu Ferðamálastofu flugu 2.423 spænskir farþegar frá Keflavíkurflugvelli í nóvember en þeir voru 743 á sama tíma í fyrra.

Offramboð á flugi?

Fjöldi spænskra ferðamanna hér á landi þrefaldaðist sem sagt í síðasta mánuði og líklega hefur ferðum Íslendinga til Barcelona og Madrídar fjölgað töluvert enda ferðuðust mun fleiri Íslendingar til útlanda í nóvember en dæmi eru um á þessum tíma árs. Farmiðar í Spánarflugið hafa einnig verið frekar ódýrir samkvæmt athugunum Túrista sem kann að vera vísbending um offramboð á flugi voru til að mynda sæti fyrir um 5 þúsund farþega í beina Íslandsfluginu frá borgunum tveimur en spænskum ferðamönnum fjölgaði um nærri sautján hundruð. Einnig má gera ráð fyrir að einhver hluti spæsnku ferðamannanna hafi komið til landsins í tengiflugi eða sé búsettur annars staðar en á Spáni.
En þrátt fyrir að nú sé hægt að fljúga beint til Barcelona og Madrídar yfir vetrarmánuðina þá kemst hvorug borgin á listann yfir þær tíu borgir sem oftast flogið til í nóvember.