Loks beint flug til Prag

czech airlines

Ekkert varð úr áformum um beint flug Czech Airlines til Íslands síðastliðið sumar en á næsta ári ætlar félagið að fljúga hingað tvisvar í viku yfir sumarið. Ekkert varð úr áformum um beint flug Czech Airlines til Íslands síðastliðið sumar en á næsta ári ætlar félagið að fljúga hingað tvisvar í viku frá byrjun júní og til loka septembermánaðar.
Þó Prag hafi um langt skeið verið ein vinsælasta ferðamannaborg Evrópu þá hafa flugsamgöngurnar milli Íslands og Tékklands verið litlar. Iceland Express spreytti sig á flugi til höfuðborgarinnar sumarið 2012 og eins hafa ferðaskrifstofur boðið upp á ferðir þangað með reglulegu millibili. Á þessu verður hins vegar breyting í byrjun næsta sumars þegar stærsta flugfélag Tékka, Czech Airlines, hefur flug hingað til lands og mun fljúga tvær ferðir í viku út september. Upphaflega ætluðu forsvarsmenn Czech Airlines að bjóða upp á Íslandsflug síðastliðið sumar en urðu svo að hætta við þrátt fyrir góðar undirtektir hjá ferðaskrifstofum í Tékklandi.

Fara frekar út á land

Tékkneskir ferðamenn eru ekki taldir sérstaklega í talningu Ferðamálastofu á Keflavíkurflugvelli og því ekki vitað hversu margir þeir eru. Hins vegar má nálgast upplýsingar um fjölda tékkneskra hótelgesta í tölum Hagstofunnar og samkvæmt þeim þá voru þeir nærri tvö þúsund talsins síðastliðið sumar. Og Tékkar eru líklegri til að gista út á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu yfir sumarmánuðina öfugt við það gildir almennt um erlenda ferðamenn hér á landi. En líkt og sjá má á grafinu hér fyrir neðan hefur fjöldi tékkneskra hótelgesta sveiflast töluvert síðustu fjögur sumur. Í fyrra komu til að mynda miklu fleiri en árin þar á undan.
Ódýrustu miðarnir með Czech Airlines til Prag kosta í dag 14.905 krónur en borga þarf aukalega fyrir farangur. Sæti eru fyrir 144 farþega í hverri ferð en lagt er í hann frá Keflavíkurflugvelli skömmu eftir miðnætti og lent í Prag rétt um hálf sjö að morgni. Frá Tékklandi fer vélin svo klukkan tíu að kveldi.