Þungur rekstur í ferðaþjónustu þrátt fyrir metvertíð

Hátt gengi íslenskur krónunnar veldur vanda hjá þeim sem eru í útflutningi og þar er ferðaþjónustan ekki undanskildin jafnvel þó viðskiptavinunum fjölgi hratt. Hátt gengi íslenskur krónunnar veldur vanda hjá þeim sem eru í útflutningi og þar er ferðaþjónustan ekki undanskildin jafnvel þó viðskiptavinunum fjölgi hratt.
Þrátt fyrir metsumar í ferðaþjónustunni er ekki útlit fyrir góða afkomu hjá fjölda fyrirtækja í greininni í ár. Styrking krónunnar og launahækkanir vega þar þungt. Um þetta eru þeir stjórnendur í greininni, sem Túristi hefur rætt við, sammála um. Með sterkari krónu lækka nefnilega tekjur í ferðaþjónustunni. Með beinum hætti hjá þeim aðilum sem selja í erlendri mynt en óbeint hjá fyrirtækjum sem selja í krónum þar sem viðskiptavinir þeirra reikna verðið yfir í sinn eigin gjaldmiðil áður en þeir taka ákvörðun um kaup. Fyrir tveimur árum fengust 154 krónur fyrir eina evru en í dag er virði hennar 119 kr. Tekjulækkunin í evrum talið nemur nærri fjórðungi á tímabilinu en til samanburðar hefur breska pundið lækkað um 28 prósent en bandarískur dollari minna eða um ríflega tíund. Spár flestra aðila gera ráð fyrir frekari styrkingu krónunnar á næstu misserum. „Ef aukin ferðamennska hefur að einhverju leiti byggst á veikri krónu þá er þessi styrkleiki algjörlega horfinn,” segir einn viðmælenda Túrista og telur ekki svigrúm til að hækka gjaldskrár meðal annars vegna þess að breytingar á virðisaukaskatti á ferðaþjónustu, sem gerðar hafa verið síðustu ár, hafi farið beint út í verðlagið.

Erfitt fyrir nýliða

Síðustu tvö ár hefur ferðamönnum hér á landi fjölgað um ríflega 70 prósent og markaður ferðaþjónustufyrirtækjanna því stækkað verulega. En kostnaðurinn, sem er að mestu leyti í krónum, hefur líka hækkað. Meðal annars í kjölfar kjarasamninga en víða í ferðaþjónustu vegur launakostnaður þungt. Sérstaklega hjá fyrirtækjum sem sérhæfa sig afþreyingu eða veitingasölu en þar er algengt að launagreiðslur séu um helmingur alls kostnaðar. Í flugi og gistingu mun vægi launa vera lægra.
Að búa við minnkandi tekjur en hækkandi kostnað er erfitt í öllum rekstri og sérstaklega hjá nýlegum fyrirtækjum sem sett voru á laggirnar í allt öðru og betra rekstrarumhverfi en nú ríkir. Mörg þessara fyrirtækja munu einnig vera mjög skuldsett og þurfa þau til að mynda að greiða nokkru hærri vexti en sambærileg fyrirtæki í nágrannalöndunum. Háar afborganir gera því illt verra. „Það hefur verið mikil fjárfesting í ferðaþjónustu að undanförnu. Ekki aðeins í afkastagetu fyrirtækja heldur einnig í hótelbyggingum og öðrum dýrum mannvirkjum. Slíkt er ekki gert án skuldsetningar og aðallega í krónum. Þessi lán bera háa vexti og þau verða ekki greidd nema að fyrirtækin séu rekin með hagnaði. Það er eins gott að hann verði einhver,” segir einn þeirra aðila sem rætt var við um stöðuna í ferðaþjónustunni. Rótgróin fyrirtæki í greininni ættu hins vegar flest að standa styrkum fótum eftir langt vaxtarskeið en nú reyni þó fyrir alvöru á rekstur þeirra. 

Sameiningar á næstunni?

Vöxtur ferðaþjónustunnar hefur verið gífurlega hraður síðustu ár og mörg ný fyrirtæki hafa orðið til í faginu. Flest hver mjög lítil og viðmælendur Túrista telja að breyttar rekstraraðstæður geti kallað á sameiningar smærri fyrirtækja eða að þau renni inn í stærri einingar til að geta betur ráðið við sveiflur í rekstri. Á sama tíma telja menn víst að nú bíði á hliðarlínunni fjárfestar sem muni freista þessa að komast yfir fyrirtæki í ferðaþjónustu sem eru í góðum rekstri en eru illa fjármögnuð eða hafa ekki mátt við tekjumissinum vegna gengisbreytinga.