Tvísýnt með beint flug til Rómar í sumar

colosseum rom

Ekki víst að boðið verði upp á beint flug til höfuðborgar Ítalíu á næsta ári. Síðustu tvö sumur hafa bæði Vueling og WOW air boðið upp á beint flug til höfuðborgar Ítalíu. Það fyrrnefnda hefur gefið flugleiðina upp á bátinn og WOW air hefur ekki ennþá sett Róm á sumardagskrána.
Lengi vel takmarkaðist áætlunarflug milli Íslands og Ítalíu við sumarferðir Icelandair til Mílanó. Iceland Express bauð svo upp á flug til Bologna um skeið og þegar WOW air hóf starfsemi þá var Mílanó eini ítalski áfangastaður félagsins. Á því varð breyting í fyrrasumar þegar WOW fór jómfrúarferð sína til Rómar en á sama tíma hóf spænska lággjaldaflugfélagið Vueling að fljúga tvisvar í viku til Íslands frá Leonardo da Vinci flugvelli í Róm. Bæði þessi flugfélög héldu uppteknum hætti síðastliðið sumar en nú hafa forsvarsmenn Vueling ákveðið að taka þráðinn ekki upp á næsta ári en þess í stað einbeita sér að heilsársflugi hingað frá Barcelona samkvæmt svari upplýsingafulltrúa félagsins til Túrista. Á heimasíðu WOW air er ennþá ekki hægt að bóka flug til Rómar og ástæðan er sú, að sögn Svanhvítar Friðriksdóttur, talskonu WOW air, að endanleg sumaráætlun félagsins verður ekki tilbúin fyrr en í lok janúar eða í byrjun febrúar. Nánari upplýsingar um framhalda Rómarflug WOW liggja ekki fyrir fyrr en þá.

Of langt til Rómar?

Það tekur hátt í 5 tíma að fljúga héðan til höfuðborgar Ítalíu og það er með því lengsta sem íslensku flugfélögin fljúga yfir á meginland Evrópu. Til að mynda eru flugtíminn til allra áfangastaða Icelandair í Evrópu, fyrir utan Madríd, í mesta lagi rúmlega fjórir klukkutímar en þannig nær félagið að tengja saman flug frá N-Ameríku og Evrópu innan sólarhringsins. WOW air hefur tekið upp sama fyrirkomulag og það er því ekki víst að flug til Rómar henti leiðakerfi félagsins eins vel á næsta ári og það hefur gert síðustu tvö sumur.

Nýr ítalskur áfangastaður á næsta ári

En þó Rómarflug myndi leggjast af þá munu farþegar á Keflavíkurflugvelli áfram getað flogið reglulega til tveggja ítalskra áfangastaða næsta sumar því Primera air ætlar að hefja flug milli Íslands og Trieste líkt og Túristi greindi frá. Þær ferðir verða í boði frá lokum maí og til enda ágústmánaðar en Trieste liggur í norðausturhorni Ítalíu, ekki langt frá Feneyjum og alveg við landamærin að Slóveníu.