Veruleg aukning í flugi til Barcelona og Madrídar í sumar

barcelonna Camille Minouflet

Áætlunarflug héðan til meginlands Spánar mun aukast miðað við núverandi áætlanir flugfélaganna. Áætlunarflug héðan til meginlands Spánar mun aukast miðað við núverandi áætlanir flugfélaganna. Nokkur munur er á lægstu fargjöldum.
Þeir sem setja stefnuna á höfuðborg Spánar eða Barcelona næsta sumar munu hafa úr meiru að moða en áður. Til Barcelona verður til að mynda flogið 49 sinnum í júlí og þá eru 23 ferðir á dagskrá til Madrídar. Í heildina fjölgar ferðunum til borganna tveggja um liðlega þrjátíu yfir sumarmánuðina þrjá samkvæmt athugun Túrista en mest til Barcelona. Munar þar miklu um að Norwegian mun í fyrsta skipti fljúga hingað frá El Prat flugvelli í Barcelona yfir sumarmánuðina en þetta norska lággjaldaflugfélag hefur í vetur boðið upp á vetrarflug hingað frá Madríd og Barcelona. Hlé verður hins vegar gert á fluginu frá spænsku höfuðborginni í sumar en áformað að taka upp þráðinn að nýju næsta haust samkvæmt upplýsingum frá Norwegian.
Á hinn bóginn mun Iberia Express snúa tilbaka til Íslands í júní og fljúga hingað frá Madríd tvisvar til þrisvar sinnum í viku fram í september. Spænska lággjaldaflugfélag hóf Íslandsflug í fyrra og þá voru ferðirnar aðeins tvær í viku. Áður var Icelandair eitt um flugið til Madrídar en íslenska flugfélagið er það eina sem býður upp á áætlunarflug til bæði Barcelona og Madrídar frá Íslandi yfir sumarið. WOW air er hins vegar atkvæðamest í fluginu til fyrrnefndu borgarinnar með allt að fjórar ferðir í viku.

Ódýrustu flugmiðarnir

Fargjöld flugfélaganna sem fljúga til tveggja fjölmennustu borga Spánar í sumar eru mjög mismunandi og aðeins hjá Icelandair er farangur, sætisval og drykkir innifaldir í farmiðaverðinu. Þar eru ódýrustu miðarnir líka dýrari en hjá hinum flugfélögunum og kostar farið til Barcelona frá 29.615 krónum og 23.715 til Madrídar. Norwegian og WOW hafa á boðstólum lægstu fargjöldin til Barcelona og kosta þau rétt um 9 þúsund krónur en farið fer upp í 11.909 krónur hjá Norwegian ef farangur er innritaður en nærri 14 þúsund hjá WOW air. Farið hjá Vueling er ögn hærra. Með Iberia Express má komast til Madrídar fyrir tæpar 17 þúsund krónur. Allt eru þetta fargjöld fyrir flug frá Keflavíkurflugvelli til Spánar en ódýrustu farmiðarnir heim kosta oft álíka mikið samkvæmt athugun Túrista. En þar sem framboðið er mikið þá er hægt að fljúga út með einu flugfélagi en heim með öðru.