Bílastæðagjöld við ferðamannastaði í stjórnarsáttmála

Sérstaku ferðamálaráðuneyti verður ekki komið á laggirnar við stjórnarskiptin en tilvonandi forsætisráðherra útilokar ekki breytingar. Sérstöku ferðamálaráðuneyti verður ekki komið á laggirnar við stjórnarskiptin en tilvonandi forsætisráðherra útilokar ekki breytingar á kjörtímabilinu. Hins vegar er talað fyrir „skynsamlegri gjaldtöku“ í ferðaþjónustunni í stjórnarsáttmálanum sem kynntur var í dag.
Um áratugaskeið voru málefni ferðaþjónustunnar undir samgönguráðherra en árið 2007 voru þau flutt í iðnaðarráðuneytið. Í tíð fráfarandi ríkisstjórnar fór iðnaðar- og viðskiptaráðherra með málaflokkinn og svo verður áfram samkvæmt því sem kom fram í kynningu formanna Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar á nýrri ríkisstjórn í Gerðubergi í dag. Ferðamálin verða því ekki færð úr viðskipta- og iðnaðarráðuneytinu líkt og forsvarsmenn ferðaþjónustunnar hafa reglulega talað um undanfarið en ekki mun vera útilokað að breytingar verði gerðar á kjörtímabilinu samkvæmt því sem kom fram í máli Bjarna Benediktssonar, verðandi forsætisráðherra.

Í stjórnarsáttmálanum er hins vegar boðuð samhæfð stýring ferðamála og jafnframt er tekið fram að skoða eigi „skynsamlega gjaldatöku“ í greininni og bílastæðagjöld nefnd sem dæmi um slíkt. Hins vegar er ekki minnst á hækkun komugjalda eða hækkun virðisaukaskatts í greininni líkt og hefur verið í umræðunni bæði fyrir og eftir kosningarnar í haust.

Margt líkt í nýja og gamla sáttmálanum 

Í stjórnarsáttmála fráfarandi ríkisstjórnar sem kynntur var vorið 2013 var einnig opnað fyrir gjaldtöku í greininni en frumvarp um náttúrupassa var hins vegar á endanum slegið út af borðinu. Hins vegar gekk í gegn þreföldun á gistináttaskatti úr 100 í 300 krónur á hverja gistinótt. Það vekur hins vegar athygli að kaflarnir um ferðamál í nýja og gamla stjórnarsáttmálanum er líkir. Í þeim báðum er talað fyrir langtímastefnumótun í ferðaþjónustunni, dreifingu ferðamanna um landið, gjaldtöku og náttúruvernd. Í nýja sáttmálunum er svo áhersla lögð á aukna arðsemi í greininni en þeim gamla var áhersla á „sköpun verðmætra starfa“ í ferðaþjónustu. Áherslan sem ríkisstjórn Sigmundar Davíðs vildi leggja á menningartengdan túrisma er hins vegar ekki í nýja sáttmálanum eins og sjá má í textanum hér fyrir neðan:
Um ferðamál í nýjum stjórnarsáttmála:
Vægi ferðaþjónustunnar sem atvinnugreinar endurspeglist í verkefnum stjórnsýslunnar og langtímastefnumótun. Á næstu árum verður lögð áhersla á verkefni sem stuðla að samhæfðri stýringu ferðamála, áreiðanlegri gagnaöflun og rannsóknum, náttúruvernd, aukinni arðsemi greinarinnar, dreifingu ferðamanna um land allt og skynsamlegri gjaldtöku, t.d. með bílastæðagjöldum.