Ein taska í stað tveggja í Ameríkuflugi Icelandair

kef taska 860

Breytingar á farangursheimild farþega Icelandair á leið vestur yfir haf. Fargjöld fara lækkandi segir talsmaður félagsins.
Til þessa hafa tvær innritaðar ferðatöskur verið hluti fjargjaldsins í flugi Icelandair til Bandaríkjanna og Kanada en ein taska þegar flogið er til Evrópu. Frá og með 17. janúar næstkomandi verða farangursreglur félagsins samræmdar þannig að ein innrituð ferðataska, auk handfarangurs, verður innifalin í flugfargjaldi á almennu farrými bæði til Evrópu og Norður-Ameríku. Aðspurður um ástæður þessara breytinga segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, að aðeins hluti farþega félagsins hafi nýtt sér þess tveggja tösku heimild. Hann bendir jafnframt á að ekkert annað flugfélag hafi tvær töskur innifaldar í fargjaldinu hjá sér og mörg þeirra rukki til að mynda aukalega fyrir allan farangur. „Hjá Icelandair erum við stöðugt að laga þjónustu okkar að nýjum aðstæðum og óskum viðskiptavina. Við bjóðum upp á góð sæti og sætabil, afþreyingarkerfi, þráðlaust netsamband, þrjú farrými, mikla veitingaþjónustu um borð og svo framvegis. Öll okkar þjónusta er í stöðugri skoðun og þróun og samræming á farangursreglunum er liður í því.”

Lækka fargjöld á móti

Samhliða þessum breytingum boðar Icelandair lækkun á fargjöldum til N-Ameríku en sú lækkun er ekki föst tala eða ákveðið hlutfall að sögn Guðjóns. „Verð er að lækka um þessar mundir um nokkur þúsund krónur, en flugverð er breytilegt, eins og allir þekkja og fer mjög eftir eftirspurn og markaðsaðstæðum á hverjum tíma.” En hefur aukin samkeppni í flugi yfir hafið ekki mikil áhrif líka, ekki bara frá Íslandi heldur líka frá Evrópu? „Jú, við sjáum þessa sömu þróun allt í kringum okkur og tökum þátt í henni. Höldum ákveðinni sérstöðu, m.a. með séríslenskum áherslum og blæbrigðum í þjónustunni sem reynist vel, en höldum okkar samkeppnishæfni“.

Þeir sem bóka flug með Icelandair til N-Ameríku fyrir 17. janúar mega taka með sér tvær töskur, óháð því hvenær sjálf ferðin verður farin. Farangursheimild hjá börnum, 2-11 ára, verður á sama tíma aukin því þá verður fólki gert kleift að innrita smákerru ofan á hefðbundna farangursheimild.