Ríkisskattstjóri haft afskipti af hundruðum mála tengdum ferðaþjónustunni

Mynd: Sigurjón Ragnar/sr-photos.com

Á sama tíma og mikill uppgangur hefur orðið í ferðaþjónustu hafa skattaundanskot í greininni verið til umræðu og sérstaklega í kringum leigu á húsnæði til ferðamanna. Á sama tíma og mikill uppgangur hefur orðið í ferðaþjónustu hafa skattaundanskot í greininni verið til umræðu og sérstaklega í kringum leigu á húsnæði til ferðamanna.
Um áramót gengu í gildi nýjar og strangari reglur um skammatímaleigu á húsnæði. Nú verða allir leigusalar að skrá eignir sínar og í framhaldinu mega þeir að hámarki leigja út í 90 daga á ári og tekjurnar skulu ekki fara yfir 2 milljónir á tímabilinu. Allt umfram þetta er brot á lögum um heimagistingu og geta sektirnar numið allt að einni milljón króna. Það er Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu sem heldur utan um skráningu og hefur eftirlit með að nýju reglunum sé fylgt og munu starfsmenn embættisins halda úti athugunum á bókunarvefjum eins og Airbnb en þar eru leigusalar til að mynda skyldugir til að birta áður nefnd skráningarnúmer. Sýslumaðurinn tekur einnig við ábendingum frá almennum borgurum um hugsanleg brot á reglum um heimagistingu líkt og Túristi greindi frá.

Skráningu ábótavant

Eftirlit með tekjum af skammtímaleigu og greiðslu gistináttaskatts er hins vegar í höndum skattayfirvalda og samkvæmt svari frá ríkisskattstjóra þá hefur embættið skoðað ýmsa þætti í ferðaþjónustu og það hefur haft í för með sér leiðbeiningar eða endurákvarðanir í hundruðum mála, þar á meðal hjá einyrkjum. En endurspegla tekjur ríkisins af gistináttagjaldi aukin umsvif fyrirtækja eins og Airbnb hér á landi? „Það er mat ríkisskattstjóra að skráningu aðila á gistináttaskrá sé nokkuð ábótavant og skráningin sem slík gefi því ekki rétta mynd af framtöldum tekjum vegna þessarar starfsemi. Útleiga fyrir milligöngu Airbnb leiðir þó ekki ein og sér til skráningar á gistináttaskrá þar sem umsvif og fleira eru forsendur skráningar. Aðilar eru þannig færðir á skrá að eigin frumkvæði eða eftir því sem uppgötvast við eftirlit.” En hefur embættið tök á því að fylgjast með því að leigutekjur einstaklinga fari ekki yfir hið nýja 2 milljón króna hámark, t.d. með því að skoða erlendar greiðslur til íslenskra leigusala? „Aðkoma ríkisskattstjóra er með sama hætti og varðar alla skattskylda aðila og almennt eftirlit með því að skattskyldar tekjur skili sér.”

Ekkert samstarf við Airbnb

Reynsla yfirvalda í París og víðar er sú að skattar tengdir útleigu á íbúðahúsnæði til ferðamanna skili sér illa og því hafa Airbnb og önnur sambærileg fyrirtæki verið skikkuð til að innheimta hótelskatta í frönsku höfuðborginni. Talsmaður Airbnb sagði í svari til Túrista í síðustu viku að fyrirtækið gæti einnig unnið með íslenskum skattayfirvöldum að þess háttar innheimtu. Þessi leið hefur ekki verið skoðuð hér á landi því samkvæmt svari frá embætti ríkisskattstjóra þá er framkvæmdin í dag í samræmi við gildandi rétt og breytingar á honum eru ekki alfarið á valdsviði embættisins.