Ferðabann Trump hefur áhrif á farþega íslensku flugfélaganna

bandarikin fani thomas kelley

WOW mun endurgreiða farmiða þeirra farþega sem ekki fá að ferðast til Bandaríkjanna vegna tilskipunar forseta landsins og þess háttar mál verða skoðuð með „jákvæðum hug“ hjá Icelandair. WOW mun endurgreiða farmiða þeirra farþega sem ekki fá að ferðast til Bandaríkjanna vegna tilskipunar forseta landsins og þess háttar mál verða skoðuð með „jákvæðum hug“ hjá Icelandair.
Á föstudag gaf Donald J. Trump, Bandaríkjaforseti, út tilskipun þar sem fólki frá Sýrlandi, Írak, Íran, Jemen, Lýbíu, Sómalíu og Súdan er tíma­bundið bannað að ferðast til Banda­ríkj­anna. Í kjölfarið hefur fjöldi flugfarþega með vegabréf frá þessum löndum verið meinað að koma inn í landið og hefur þetta valdið vandræðum á fjölmörgum flughöfnum vestanhafs. Tilskipun forsetans hefur verið gagnrýnd harðlega bæði innan Bandaríkjanna sem og utan, meðal annars af ráðherrum í ríkisstjórn Íslands.
Bæði Icelandair og WOW air eru stórtæk í flugi til Bandaríkjanna og til að mynda fljúga 13 þotur á vegum félaganna tveggja til Bandaríkjanna í dag með sætum fyrir hátt í þrjú þúsund farþega. Að sögn Svanhvítar Friðriksdóttur, upplýsingafulltrúa WOW, þá hafa um tíu farþegar, frá fyrrnefndum sjö ríkjum, haft samband við þjónustuver flugfélagsins vegna ferðabannsins og hafa forsvarsmenn WOW ákveðið að endurgreiða eða leyfa breytingar á farmiðum farþegunum að kostnaðarlausu. Guðjón Arngrímsson hjá Icelandair segir að hingað til hafi ekki nein tilfelli komið inn á borð félagsins vegna tilskipunnar Trump en eðlilega fái félagið fjölda fyrirspurna um málið. Aðspurður um endurgreiðslur á farmiðum til farþega sem kynnu að lenda í vandræðum við bandarísk landamæri segir Guðjón að hvert tilfelli verði skoðað fyrir sig með jákvæðum huga. 

Eins og áður segir þá hefur fjöldi fólks verið stöðvaður við komuna til Bandaríkjanna síðustu sólarhringa og þar á meðal einstaklingar með dvalarleyfi í Bandaríkjunum eða tvöfalt ríkisfang. Telja andstæðingar ferðabannsins það til marks um hversu vanhuguð tilmæli forsetans voru og illa undirbúin.