Ferðametið frá 2007 slegið

Ríflega hálf milljón íslenskra farþega átti leið um Keflavíkurflugvöll í fyrra og hafa þeir aldrei verið jafn margir á einu ári. Ríflega hálf milljón íslenskra farþega átti leið um Keflavíkurflugvöll í fyrra og hafa þeir aldrei verið jafn margir á einu ári.
Aldrei áður hefur verið hægt að fljúga beint héðan til eins margra áfangastaða í útlöndum og til nokkurra þeirra eru ferðirnar nokkrar á dag. Þetta mikla framboð hreyfir greinilega við landanum því aldrei áður hafa eins margir Íslendingar flogið út í heim frá Keflavíkurflugvelli eins og á síðasta ári. Þá fóru 536.257 farþegar í gegnum vopnaleitina með íslensk vegabréf en áður höfðu þeir flestir orðið árið 2007 þegar 469.885 Íslendingar flugu frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Árið 2015 voru íslensku farþegarnir 450 þúsund talsins.
Júní var langstærsti ferðamánuðurinn í fyrra enda flugu þá mörg þúsund Íslendingar til Frakklands til að vera viðstaddir leiki íslenska karlalandsliðsins á EM. Eins og sést á súluritinu hér fyrir neðan þá ferðuðumst við meira alla mánuðina í fyrra í samanburði við árið 2007 nema í febrúar og ágúst.