Fleiri flugfarþegar en á annasömum sumardegi

kef farthegar

Vel á fimmta þúsund farþegar voru innritaðir í morgunflug á Keflavíkurflugvelli í morgun. Vel á fimmta þúsund farþegar voru innritaðir í morgunflug á Keflavíkurflugvelli í morgun.
Yfir hásumarið er algengt að 3 til 4 þúsund farþegar fari um innritunarsal Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar á hverjum morgni. Í dag voru farþegarnir í morgunsárið ívið fleiri eða 4.455 talsins samkvæmt upplýsingum frá Guðna Sigurðssyni, talsmanni Isavia. Hann segir umferðina í morgun hafa jafnast á við það sem mest gerist á flugvellinum og mynduðust langar raðir við vopnaleitina milli klukkan tíu mínútur í sex og sjö. Þá var meðalbiðtími við öryggishliðin 20 mínútur. Á nýársdag voru morgunfarþegarnir 4.118 og þá var biðtíminn að jafnaði um 7 til 8 mínútur.

27 morgunflug

Eins og fram hefur komið var ásókn í Íslandsferðir mun meiri yfir þessi áramót en dæmi eru um og það skýrir hina miklu umferð til og frá Keflavíkurflugvelli þessa fyrstu daga ársins. Í dag tóku til að mynda 27 farþegarþotur á loft frá Keflavíkurflugvelli fyrir klukkan níu í morgun sem er sambærilegt við ferðafjöldann á hefðbundnum sumarmorgni. Að jafnaði seinkaði brottförum morgunsins um 22 mínútur samkvæmt útreikningum Túrista.