Stórauka Íslandsflugið löngu fyrir í jómfrúarferðina

Stjórnendur stærsta flugfélags Finnlands líta ekki lengur á Ísland sem sumaráfangastað heldur ætla að bjóða upp á flug hingað allt árið um kring.

finnair a

Um páskana hefst áætlunarflug Finnair hingað til lands frá höfuðborg Finnlands en félagið hefur ekki áður flogið reglulega til Íslands. Upphaflega stóð til að bjóða upp á fjórar ferðir í viku frá vori og fram á haust en vegna mikillar eftirspurnar hafa forsvarsmenn félagsins ákveðið að bæta við einni ferð í viku og bjóða upp á Íslandsflug allt árið um kring.
Finnska flugfélagið er stórtækt í flugi til Austurlanda fjær og aðspurður segir Simon Barrette, upplýsingafulltrúi félagsins, að mikil eftirspurn eftir Íslandsferðum í Kína og Japan sé ein helsta ástæðan fyrir þessari breytingu á áætlun Finnair. Hann segir þó að áhugi Finna sjálfra á fluginu sé líka mikill.

Hugsanlega fleiri ferðamenn frá Asíu og Ástralíu

Á sama hátt og Icelandair, og nú WOW air, hafa nýtt sér legu Íslands til að bjóða upp á tíðar ferðir til margra áfangastaða í N-Ameríku þá hefur leiðakerfi þjóðarflugfélags Finna verið byggt upp í kringum flug til Asíu, Ástralíu og Nýja-Sjálands. Flugtíminn frá Helsinki til þessara landa er nefnilega oft styttri en frá flugvöllum á meginlandi Evrópu. Í dag flýgur Finnair til 5 kínverskra borga, fjögurra japanskra auk áfangastaða í Ástralíu, S-Kóreu, Indlandi og víðar og með Íslandsflugi Finnair gæti ferðamenn frá þessum löndum orðið tíðari gestir hér á landi. Á síðasta ári komu um 67 þúsund kínverskir ferðamenn sem var aukning upp á 40 prósent frá árinu 2015. Japanirnir voru þrefalt færri en þeim fjölgaði þó líka um mikið eða um ríflega þriðjung í fyrra.

Finnair og Icelandair hafa átt í samstarfi í flugi á milli Íslands og Helsinki og hafa ferðir Icelandair til að mynda verið sammerktar Finnair (Code share) og mun hið nýja áætlunarflug Finnair til Íslands ekki hafa áhrif á það samstarf samkvæmt upplýsingum frá Finnair. Íslendingar á leið til Asíu ættu því áfram flogið á einum miða með Icelandair og Finnair alla daga en yrðu ekki aðeins bundnir við áætlun Finnair.