Taka við ábendingum frá borgurum um brot á reglum um heimagistingu

reykjavik Tim Wright

Strangari reglur um leigu á húsnæði til ferðamanna gengu í gildi um áramót. Hámarkssekt við brotum er ein milljón króna. Strangari reglur um leigu á húsnæði til ferðamanna gengu í gildi um áramót. Hámarkssekt við brotum er ein milljón króna.
Frá og með áramótum takmarkast skammtímaleiga á íbúðahúsnæði við 90 daga á almanaksárinu og hámarkstekjur af útleigunni mega ekki nema meira en 2 milljónum yfir árið. Hver einstaklingur getur skipt þessum 90 dögum milli tveggja eigna, til dæmis íbúðarhúsnæði og sumarbústaðar. Allir leigusalar verða að skrá eignir sínar og fá leyfisnúmer sem skylt er að nota í allri markaðssetningu og kynningarstarfsemi m.a. á bókunarvefjum. Það er Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu sem annast eftirlit með skráðri og skráningaskyldri heimagistingu á landsvísu og samkvæmt upplýsingum frá embættinu þá verður eftirlit með heimagistingu fyrst og fremst rafrænt. „Sýslumaður mun halda úti virku frumkvæðiseftirliti með könnun á bókunarvefjum á borð við airbnb.com og booking.com. Þá tekur sýslumaður á móti ábendingum frá öðrum eftirlitsaðilum og almennum borgurum.” Í svarinu segir jafnframt að Sýslumaður hafi heimild til að leita atbeina lögreglu til að sannreyna hvort að skráningaskyld starfsemi eigi sér stað. Lagðar verða stjórnvaldssektir við brotum á nýju lögunum og nema þær að lágmarki 10 þúsund krónum en hámarkssekt er 1 milljón. Hægt er að skrá eignir á vefsíðunni Heimagisting.is.

Segir Airbnb viljugt til að innheimta skatta

Líkt og áður segir þurfa leigusalar hér með að láta leyfisnúmer koma fram í auglýsingum á húsnæði á Airbnb og sambærilegum vefsíðum. Simon Letouze, upplýsingafulltrúi Airbnb, segir í svari til Túrista að fasteignaeigendur geti sett leyfisnúmerin sín inn í lýsingu á viðkomandi eign en þann texta sé hægt að uppfæra eins oft og viðkomandi kýs. Hann bendir jafnframt á að Airbnb árétti það fyrir leigusölum að fylgja þeim reglum sem gildi í hverju landi fyrir sig. Samkvæmt reglum hér á landi þá á að innheimta 100 krónur í gistináttaskatt á hverja eign sem leigð er út í sólarhring. Sambærilegar álögur eru í mörgum evrópskum borgum en almennt er reynslan sú að einstaklingar sem leigja út til ferðamanna standa sig illa í að skila inn þessum opinberu gjöldum. Í París hafa yfirvöld skikkað Airbnb og önnur sambærileg fyrirtæki til að innheimta hótelskatta og standa svo skil á þeim gagnvart yfirvöldum. Aðspurður um hvort Airbnb gæti einnig innheimt gistináttaskatt á Íslandi segir Letouze að fyrirtækið leiti leiða, með yfirvöldum víða um heim, að koma á innheimtu opinberra gjalda.