Icelandair ekki lengur með meirihluta brottfara

icelandair wow

Vanalega stendur Icelandair undir bróðurparti allra áætlunarferða frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar en í desember fór vægi félagsins í fyrsta skipti undir helming. Vanalega stendur Icelandair undir bróðurparti allra áætlunarferða frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar en í desember fór vægi félagsins í fyrsta skipti undir helming. Í farþegum talið var Icelandair ríflega tvöfalt stærra í fyrra en WOW air.
Þrátt fyrir að erlendu flugfélögunum fjölgi og umsvif WOW air aukist hratt þá hefur hlutdeild Icelandair í umferðinni um Keflavíkurflugvöll hingað til ekki farið undir helming. Það gerðist hins vegar í síðasta mánuði þegar félagið stóð undir 47 prósentum af öllum áætlunarferðum frá flugvellinum samkvæmt talningum Túrista.
Til samanburðar þá lét nærri að tvær af hverjum þremur þotum sem tóku á loft frá flugvellinum í desember 2015 og 2014 væru á vegum Icelandair. Hlutfallið lækkaði því umtalsvert í lok síðasta árs eins og sjá má á súluritinu hér fyrir neðan. Þessi þróun á sér stað þrátt fyrir að brottförum Icelandair hafi fjölgað síðastliðið ár.

Dregur líka saman í farþegum talið

Flugáætlun WOW air er hins vegar mun viðameiri núna en hún var á sama tíma í fyrra og þar með jókst vægi WOW töluvert í desember eða upp í nærri 30 prósent. Talningar Túrista ná aðeins yfir fjölda flugferða en síðustu daga hafa forsvarsmenn íslensku félaganna birt tölur um farþegafjölda og samkvæmt þeim flutti Icelandair um 220 þúsund farþega í síðasta mánuði en ríflega 173 þúsund flugu með WOW air. Munurinn er rúmur fjórðungur en til samanburðar voru farþegar Icelandair ríflega tvöfalt fleiri en hjá WOW air í desember í hittifyrra.
Allt árið 2016 fóru um 3,7 milljónir með Icelandair en um 1,7 milljón með WOW air og stækkuðu bæði félög líkt og undanfarin ár eins og sést á neðra súluritinu.