Margir leita að Íslandsflugi frá Hong Kong

230 þúsund sinnum var flugbókunarsíðan Skyscanner nýtt til að finna flug hingað frá Hong Kong í fyrra.

Hong kong Chester Ho

Áætlunarflug milli Asíu og Íslands hefur aldrei verið í boði og því þurfa farþegar á þessari leið að millilenda á meginlandi Evrópu eða í Bretlandi. Það virðist þó ekki draga úr áhuga Asíubúa á Íslandsreisum því ferðamönnum þaðan hefur fjölgað hratt hér síðustu ár, sérstaklega frá Kína. Og áhuginn á ferðum hingað til lands frá Austurlöndum fjær er greinilega mikill því samkvæmt athugun flugbókunarsíðunnar Skyscanner þá leituðu notendur hennar 230 þúsund sinnum eftir flugi frá Hong Kong til Íslands í fyrra. Í nærri níu af hverjum 10 tilvikum var um að ræða farþega sem ætluðu að hefja ferðalagið í Hong Kong.

Aðeins klukkutíma lengri flugtíma en til Kaupmannahafnar

Um þennan mikla áhuga er fjallað í flugritinu Anna.aero og þar er haft eftir Hlyni Sigurðssyni, framkvæmdastjóra Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar, að í dag millilendi flestir asískir ferðamenn sem komi til Íslands í Kaupmannahöfn, Frankfurt, Helsinki eða London á leið sinni hingað. Bendir Hlynur á að þrátt fyrir fjarlægðina þá yrði farþegaþota aðeins klukkutíma lengur fljúga hingað frá Hong Kong en til Kaupmannahafnar. Jafnvel þó það taki um þrjá tíma að fljúga beint milli Kaupmannahafnar og Keflavíkurflugvallar.  Hlynur bætir því við að hann sjái mikil tækifæri í beinu flugi hingað frá fjölförnum asískum flughöfnum eins og Peking, Sjanghæ, Hong Kong, Seoul og Tókýó.

Peking kannski raunhæfasti kosturinn

Af þessum fimm borgum er flugtíminn hingað stystur frá Peking eða um 10 og hálfur tími. Flugið frá Hong Kong er hins vegar tveimur tímum lengra og þar af leiðandi væri ekki hægt að fljúga sömu vélinni til Íslands og aftur til Hong Kong á einum sólarhring. En það mun vera mikilvægt atriði hjá flugfélögum þegar ákvörðun er tekin um flug til fjarlægari slóða samkvæmt viðmælendum Túrista í fluggeiranum. Þannig er til að mynda hægt að nota eina þotu í áætlunarferðirnar og ávallt fljúga á sama tíma. Af þessum sökum er beint flug milli Íslands og Peking því kannski raunhæfari kostur en til Hong Kong. Þrátt fyrir mikinn áhuga farþega þar á flugi beint til Keflavíkurflugvallar.