Hefja ekki á ný flug til Nice

nice 2

WOW air mun ekki taka upp þráðinn í sumar og bjóða upp á beint flug til frönsku Riveríunnar. WOW air mun ekki taka upp þráðinn í sumar og bjóða upp á beint flug til frönsku Riveríunnar.
Síðastliðið sumar var í fyrsta skipti boðið upp á áætlunarferðir héðan til Nice í Frakklandi en þá flugu þotur WOW air til borgarinnar alla fimmtudaga og sunnudaga. Vafalítið nýttu margir Íslendingar sér þessar ferðir í tengslum við EM í Frakklandi og sérstaklega fyrir sögufrægan leik Íslendinga og Englendinga þann 27. júní sl.
Í dag er hins vegar ekki hægt að bóka farmiða héðan með WOW til Nice og staðfestir Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi WOW, að ekki verði framhald á áætlunarfluginu til borgarinnar í sumar. 

Var góð viðbót

Þrátt fyrir stærð Frakklands, vinsældir landsins meðal erlendra ferðamanna og þá staðreynd að Frakkar eru fjórða fjölmennasta þjóðin í hópi túrista hér á landi þá hafa samgöngurnar héðan takmarkast við París auk sumarflugs WOW til Lyon. Flugið til Nice var því vafalítið kærkomið því það auðveldaði aðgengið að Rivíerunni, Provence héraði og þaðan eru líka tíðar ferjusiglingar til Korsíku. Borgin sjálf er líka vinsæll áfangastaður en nokkur samdráttur hefur orðið í ferðaþjónustunni þar eftir hryðjuverkaárásina á þjóðhátíðardegi Frakka þann 14. júlí í fyrra. Þá létust á níunda tug manna og meira en hundrað slösuðust þegar flutningabíl var ekið inn í mannfjölda.

Flogið til nágrannanna

En þrátt fyrir að ekkert verði úr fluginu til Nice í sumar þá hafa Íslendingar á leið til Frakklands í sumar úr töluverðu að moða því auk flugsins til Parísar og Lyon þá geta áætlunarferðir easyJet og Icelandair til Genfar komið að góðum notum því svissneska úraborgin er skammt frá landamærunum og sömu sögu er að segja um Baselflug easyJet. Svo er ekki ýkja langt frá Barcelona að landamærum Spánar og Frakklands og áætlunarflugið til Brussel gæti hentað þeim sem ætla að heimsækja nyrstu hluta Frakklands. En Icelandair flýgur beint til belgísku höfuðborgarinnar og þangað mun WOW air fara jómfrúarferð sína í sumarbyrjun.