Ráðherra heimsótti Mid-Atlantic

midatlantic

Hin árlega ferðakaupstefna Icelandair fór fram í Laugardalshöll í gær og þangað komu helstu forystumenn ferðamála hér á landi. Hin árlega ferðakaupstefna Icelandair fór fram í Laugardalshöll í gær og þangað komu helstu forystumenn ferðamála hér á landi.
Líkt og undanfarin ár var uppselt á ferðakaupstefnuna Mid-Atlantic en dagskrá hennar lýkur formlega i dag. Þar hafa 850 aðilar í ferðaþjónustu kynnt vörur sínar og þjónustu við rúmlega 250 sýningarbása og samkvæmt tilkynningu þá voru bókaðir 6200 fundir á milli þessara aðila í gær, aðaldegi kaupstefnunnar. Meirihluti þátttakenda kemur að utan og að sögn Helga Más Björgvinssonar, framkvæmdastjóra sölu- og markaðssviðs Icelandair, er það mjög ánægjulegt þar sem kaupstefnan sé einn helsti vettvangur fyrir ferðaþjónustuna að mynda tengsl við samstarfsaðila og selja og kynna sína vöru beint fyrir kaupendum.

Fjölbreyttar kynningar

Auk íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja taka þátt í Mid-Atlantic fulltrúar erlendra ferðamálaráða, skemmtigarða, safna, hótela, afþreyingarfyrirtækja, flugvalla og fleiri aðila. Endurspeglar þessi fjölbreytta flóra þá staðreynd að stór hluti umsvifa Icelandair eru farþegar á leið milli N-Ameríku og Evrópu með viðkomu hér á landi. Á kaupstefnunni leiða því saman hesta sýna fulltrúar frá áfangastöðum félagsins vestanhafs, til að mynda Edmonton, Seattle og Orlando og Stokkhólmi, Finnlandi, norsku fjörðunum og víðar. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, nýr ráðherra ferðamála, heimsótti Mid-Atlantic í gær ásamt forsvarsmönnum ferðamála hér á landi og stjórnendum Icelandair.
Af samtölum Túrista við kaupendur og seljendur á Mid-Atlantic að dæma þá eru kaupstefnur eins og þessi mikilvægur þáttur í starfsemi ferðaþjónustufyrirtækja þrátt netvæðinguna. Aftur á móti eru ferðasýningar fyrir almenning víða á undanhaldi.