Vel bókað í skíðaferðir til útlanda

skidi sviss b

Veturinn hefur verið snjóléttur og lítið hefur verið hægt að renna sér á skíðum hér á landi. Íslendingar fjölmenna hins vegar í hlíðar Alpanna næstu vikur. Veturinn hefur verið snjóléttur og lítið hefur verið hægt að renna sér á skíðum hér á landi. Íslendingar fjölmenna hins vegar í hlíðar Alpanna næstu vikur.
Það eru vafalítið ófáir farnir að bíða óþreyjufullir eftir almennilegum snjó og sérstaklega þeir sem fengu ný skíði eða bretti í jólagjöf. Útlitið er hins vegar ekki gott en þetta er svo sem ástand sem skíðaáhugafólk þekkir og því þarf kannski að koma á óvart að skíðaferðir út í heim seljast jafnan vel. Og það er líka raunin nú í vetur segja forsvarsmenn þeirra ferðaskrifstofa sem Túristi hefur rætt við.
„Skíðaferðirnar til Ítalíu og Austurríkis seldust óvenju hratt og í lok september voru ferðir til Selva og Madonna á Ítalíu nánast uppseldar,” segir Guðrún Sigurgeirsdóttir hjá VITA. Hún segir að ferðskrifstofan hafi aukið framboð á sætum til Ítalíu í vetur um fimmtung og um 30 prósent í skíðaferðir til Austurríkis.

Fleiri í styttri ferðir

Þó flestir fari í vikulangar ferðir í fjöllin þá segir Jóhann Pétur Guðjónssson hjá GB-ferðum að í vetur hafi mesta aukningin orðið í sölu á fjögurra nótta ferðum en þá ná farþegarnir þremur dögum á skíðum. Heilt yfir hefur salan verið betri núna en á sama tíma í fyrra að sögn Jóhanns.
Hjá Úrval-Útsýn er boðið upp á ferðir til Madonna á Ítalíu og segir Jónína Björnsdóttir að febrúar sé vinsælasti mánuðurinn fyrir skíðaferðir og greinilegt sé að fólk kjósi að skipuleggja skíðaferðirnar í tengslum við skólafrí. „Enda eru skíðafrí að sögn margra bestu fjölskyldufríin,” bætir hún við.