Ósammála um kosti „skúravæðingarinnar“ við Kerið

thordis helga

Framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar og ráðherra ferðamála eru ekki á sömu skoðun varðandi gjaldtökuna við Kerið. Nýr ráðherra ferðamála hefur talað fyrir aukinni gjaldtöku á ferðamannastöðum og nefnt Kerið í Grímsnesi sem fyrirmynd um þess háttar fyrirkomulag. Framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar telur gjaldtökuna í Grímsnesi ekki vera til eftirbreytni að öllu leyti.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að skoða eigi skynsamlega gjaldtöku í ferðaþjónustu og bílastæðagjöld eru sérstaklega nefnd sem dæmi um slíkt. Í viðtali við Morgunblaðið sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, nýr ráðherra ferðamála, sagt að skilvirkasta leiðin til að dreifa ferðamönnum betur væri gjaldtaka við vinsæla ferðamannastaði og að nauðsynlegt væri að fá úr því skorið sem fyrst hvernig þetta yrði gert. Ráðherrann segir einnig að mögulega þurfi að breyta nálguninni á bílastæðagjöldum og skilgreina þau ekki lengur sem þjónustugjald heldur sem beina innheimtu. „Slíkt myndi gera sveitarfélögunum betur kleift að rukka inn á bílastæði við náttúruperlur, jafnvel þó að þar væri ekki endilega búið að byggja upp mikla aðstöðu áður en gjaldtakan hæfist, en í kjölfarið væri hægt að nýta fjár-
munina sem kæmu út úr því til uppbyggingar og viðhalds,“ segir Þórdís í viðtalinu og nefnir Kerið í Grímsnesi sem dæmi um ferðamannastað þar sem komin er reynsla á að landeigendur rukki fyrir aðgang að svæðinu. Ráðherrann var á sömu línu í viðtali við Viðskiptablaðið fyrr í mánuðinum og sagði þá mikilvægt að leyfa landeigendum að stýra fyrirkomulaginu sjálfir. „Það fyrirkomulag hefur gengið ágætlega á sumum svæðum eins og við Kerið,“ bætti Þórdís við. 

Hlynnt gjaldi fyrir bílastæði og salerni

Aðspurð um hvort forsvarsmenn Samtaka ferðaþjónustunnar telji einnig að fyrirkomulagið við Kerið sé til fyrirmyndar segir Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri SAF, að samtökin hafi talað fyrir gjaldtöku fyrir virðisaukandi þjónustu, til dæmis bílastæðagjöld og gjald fyrir salerni. „Hvað varðar ummæli ráðherra ferðamála um gjaldtöku við Kerið þá gerir maður ráð fyrir að ráðherra sé að horfa til hugmyndarinnar sem slíkrar en ekki útfærslunnar. Við höfum verið á móti „skúravæðingu“ eins og kalla má gjaldtökufyrirkomulagið við Kerið. Við teljum heppilegra að horfa til virðisaukandi fyrirkomulags þar sem á sama tíma væri hægt að nýta gjaldtökufyrirkomulagið til stýringar,“ segir Helga í svari til Túrista. Hún bendir jafnframt á að stjórnvöld eiga flest þau svæði þar sem helstu náttúruperlurnar er að finna. „Afar mikilvægt er að stjórnvöld sem eigendur horfi fyrst og síðast til þess að byggja upp innviði á viðkomandi stöðum bæði til að tryggja sjálfbærni náttúrunnar og á sama tíma upplifun gestanna. Gjaldtaka fyrir virðisaukandi þjónustu er eitthvað sem menn ættu svo að horfa til í framhaldinu rétt eins og gert er í öllum öðrum rekstri en ekki öfugt.“ Að þessu leyti eru forvarsmenn SAF ekki sammála ráðherranum sem, líkt og kemur fram hér að ofan, uppbyggingu ekki vera forsendu þess að gjaldtaka hefjist.

Tekur ekki undir gagnrýni ráðherranna á ferðaþjónustuna

Á síðasta kjörtímabili ríflega tvöfaldaðist fjöldi ferðamanna á Íslandi og greinin hefur vaxið hratt á skömmum tíma. Nýr ferðamálaráðherra segist, í viðtali við Morgunblaðið, geta tekið undir með þeim sem segi ákveðið óskipulag ríkja í greininni. „Það eru flestir sammála um það,“ bætir Þórdís við en í byrjun árs var Ragnheiður Elín Árnadóttir, þáverandi ráðherra ferðamála, á svipuðum nótum í viðtali á Hringbraut og sagði allan fókus vanta í ferðaþjónustuna og að hún væri mjög sundurlynd.
Um þessi gagnrýni núverandi og fráfarandi ráðherra ferðamála segir Helga að greinin hafi kallað eftir aukinni athygli og ábyrgð á málaflokknum. „Verkefnin liggja fyrir og eru þau sett fram í Vegvísi um ferðaþjónustu. Samtök ferðaþjónustunnar eru einhuga þeirri stefnu og þeim verkefnum sem þar koma fram og hafa verið frá upphafi. Á vettvangi Stjórnstöðvar ferðamála er verið að útfæra þessi verkefni eitt af öðru. Það skiptir hins vegar afar miklu máli að þegar búið er að greina og rýna verkefnin að stjórnkerfið taki við þeim og vinni úr þeim hratt og örugglega og byggi þannig upp innviði í fullu samstarfi greinarinnar, sveitafélaganna og annarra sem að hverju verkefni fyrir sig koma. Við viljum trúa því að ný ríkisstjórn muni láta efndir fylgja orðum,“ segir Helga.